Af sjónarhóli leikstjóra

Ritstjóri/ar/Höfundur/ar: 
Trausti Ólafsson

Sveinn Einarsson gefur hér lesanda innsýn í starf leikstjórans, þess listamanns sem heldur um alla þræði á leikæfingum og ber ábyrgð á listrænni útfærslu leiksýningarinnar. Þegar áhorfendum er boðið til stefnumóts við list hans er hann hins vegar ósýnilegur og mörgum getur reynst torvelt að átta sig á mikilvægi framlags hans til leiksviðslistarinnar.

Sveinn lýsir eigin sviðsetningum á nokkrum verkum, frá Yvonne Búrgúndarprinsessu í Iðnó 1968 til Cavalleria Rusticana og I Pagliacci í Gamla bíói 2008. Á þessu fjörutíu ára tímabili voru leikstjórnarverkefni Sveins afar fjölbreytt. Í bókinni má lesa um Antígónu Sófóklesar, Hamlet Shakespears, Fedru Racines og Pétur Gaut Ibsens, en öll þessi verk hefur Sveinn sviðsett í þýðingum Helga Hálfdánarsonar. Ónefnd eru íslensku leikritin, Galdra-Loftur, Útilegumennirnir og Gullna hliðið, auk leikgerðar á skáldsögu Halldós Laxness, Kristnihald undir Jökli. Þá segir Sveinn frá tveimur uppsetningum sínum á Afturgöngum Ibsens, annarri í Kaupmannahöfn en hinni hjá Leikfélagi Akureyrar, og sýningum leikhópsins Bandamanna á Amlóða sögu sem fór víða um heim.

Af sjónahóli leikstjóra lýsir persónulegri sýn Sveins á þennan hluta lífsstarfs síns en gefur jafnframt almenna hugmynd um íslenska leiklistar- og menningarsögu allr frá sjöunda áratug síðustu aldar.

Bókin er fyrsta í fyrirhugaðri ritröð um íslenska leikstjóra.

Útgáfuár: 
2012
Blaðsíðufjöldi: 
245
ISBN: 
978-9979-54-977-2
Verknúmer: 
U201243
Verð: 
4500