Háskóli Íslands

Afburðaárangur

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Agnes Hólm Gunnarsdóttir og Helgi Þór Ingason
Verð: 
ISK 3990 - Kilja
Háskóli Íslands

Um stjórnunaraðferðir sem grundvallast á gæðastjórnun og rannsóknir á fyrirtækjum sem náð hafa afburðaárangri

Hvaða
aðgerðir og aðferðir eru líklegar til að stuðla að afburðaárangri í
rekstri fyrirtækis eða stofnunar? Sérhver metnaðarfullur stjórnandi
hlýtur að velta þessu fyrir sér og ýmsir fræðimenn hafa gert rannsóknir
til að leita svara við þessum og álíka spurningum. Margar
stjórnunarkenningar og -aðferðir hafa verið settar fram, en erfitt er að
segja til um hverjar þeirra stuðla að árangri. Aðferðirnar hafa
mismunandi áherslur, en þær eiga þó einnig margt sameiginlegt.
Í
þessari bók er leitast við að skapa yfirsýn yfir nokkrar vel þekktar
rannsóknir á þessu sviði, sem og nokkrar vinsælar stjórnunaraðferðir.
Leitast er við að finna snertifleti aðferðanna og setja þá í samhengi
við sameiginleg einkenni afburðafyrirtækja, sem lesa má út úr
rannsóknum.
Bókin byggist á greiningu á ýmsum stjórnunaraðferðum og
fyrri rannsóknum á afburðafyrirtækjum. Leitast er við að greina
rannsóknir sem gerðar hafa verið á vísindalegum grundvelli en auk þess
er stuðst við nýlegar skýrslur sem uppfylla ekki strangar vísindalegar
kröfur. Aðferðirnar sem hér eru til umfjöllunar hafa þróast og breyst í
tímans rás og tilgangur þessarar bókar er ekki að meta hvaða útgáfa
aðferðanna er réttust eða best heldur greina meginatriði í áherslum
þeirra. Þess má geta að í sumum tilfellum er réttara að tala um
,,fjölskyldu“ aðferða eða kenninga. Til dæmis eru til mismunandi
aðferðir við hagnýt viðmið og ferlisstjórnun og hægt er að skilgreina
margar aðferðir sem falla undir virðisstjórnun.
Bókin er skipulögð á
þann hátt að fyrst er stutt yfirlit um þróun kenninga á sviði gæða- og
frammistöðustjórnunar. Því næst er gerð grein fyrir niðurstöðum nokkurra
rannsókna um fyrirtæki sem náð hafa afburðaárangri. Þá eru útskýrðar
nokkrar stjórnunaraðferðir og stjórnunarkenningar sem sagðar eru hjálpa
til við að ná afburðaárangri. Að lokum eru dregin fram þau atriði sem
sameiginleg eru með rannsóknum og kenningum og stuttlega fjallað um
hvernig beita megi þeim öllum saman til að ná afburðaárangri.
Í bókinni er að finna innrammaðar tilvitnanir og innskot sem tengjast umfjöllunarefninu óbeint.

Blaðsíðufjöldi: 
139
Útgáfuár: 
2007
ISBN: 
978-9979-54-764-8
Efnisorð: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200701
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is