Ástin á tímum ömmu og afa

Ritstjóri/ar/Höfundur/ar: 
Anna Hinriksdóttir

Bréf og dagbækur Bjarna Jónassonar – kennara, sveitarhöfðingja og samvinnumanns í Húnaþingi á öndverðri 20. öld

Bókin fjallar um ástir, lífsstarf og hugðarefni hjónanna Bjarna Jónassonar (1891–1984) kennara, bónda, fræðimanns og sveitarhöfðinga í Bólstaðarhlíðarhreppi og Önnu Sigurjónsdóttur (1900–1993) húsmóður. Bjarni biðlaði fyrst bréfleiðis til Önnu í febrúar 1920 og lét ekki hugfallast þótt hann fengi afsvar í fyrstu. Í bókinni  er ástarsaga þeirra rakin í gegnum fjölda bréfa Bjarna til Önnu og dagbækur hans frá árunum 1908–1926. Persónuleg skrif Bjarna veita einstaka innsýn í tilfinningalíf ungs manns og draga um leið upp lifandi mynd af íslensku samfélagi á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.
Ástin á tímum ömmu og afa er í fræðibókaritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar sem ritstýrt er af sagnfræðingunum Davíð Ólafssyni, Má Jónssyni og Sigurði Gylfa Magnússyni. 
Bókin er að stofni til lokaverkefni höfundar til M.A.-prófs í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Anna hefur unnið við miðlun af ýmsum toga, m.a ritstörf, þýðingar, dagskrárgerð í sjónvarpi, vefmiðlun og hönnun sögusýninga, síðan hún lauk B.A.-prófi í kvikmynda- og fjölmiðlafræði 1991.

Útgáfuár: 
2009
Blaðsíðufjöldi: 
272
ISBN: 
978-9979-54-830-0
Verknúmer: 
U200912
Verð: 
ISK 3900 - Kilja