Kilja

Jane Austen og ferð lesandans - Skáldkonan í þremur kvennagreinum samtímans

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Alda Björk Valdimarsdóttir
Verð: 
6900

Jane Austen hefur þá sérstöðu meðal höfunda að skoðanirnar á verkum hennar eru næstum því eins áhugaverðar og vekja nánast jafn stórar spurningar og verkin sjálf.

Lionel Trilling

Verk Jane Austen hafa aldrei verið vinsælli en á okkar dögum og sér ekki fyrir endann á skáldsögum og kvikmyndum sem sótt eru í þau. Í Jane Austen og ferð lesandans er kannað hvernig ímynd Austen lifir áfram innan þriggja bókmenntagreina sem löngum hafa verið tengdar konum og njóta gríðarlegrar hylli, þ.e. í ástarsögum, skvísusögum og sjálfshjálparritum.

Glíman við Austen fer sjaldnast fram í einrúmi og hún er höfundur sem lesendur eiga í ákafari samræðum við en gengur og gerist. Lesendurnir búa sér jafnframt til sína eigin hugmynd um Austen og ganga stundum langt í að eigna sér hlutdeild í henni.

Í bókinni er fjallað um þessar þrjár bókmenntagreinar og hvernig hver um sig tekur upp afmarkaða þætti úr verkum skáldkonunnar um leið og þær einfalda og skýra ímynd hennar. Jafnframt fjalla þær allar um málefni sem löngum hafa verið tengd kvennamenningu, eins og hjónabandið og samband kynjanna.

Alda Björk Valdimarsdóttir er dósent í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsgráðu við Háskóla Íslands árið 2014 þar sem hún lagði drög að þeirri rannsókn um Jane Austen sem birtist í þessari bók. Meðal annarra rannsóknarverkefna Öldu eru enskar 19. aldar bókmenntir, endurvinnsla menningararfsins í samtímanum, hliðarsögur, endurritanir og aðlaganir og íslenskar samtímabókmenntir. 

Alda Björk hefur gefið út bækurnar Rithöfund Íslands: Skáldskaparfræði Hallgríms Helgasonar (2008), Hef ég verið hér áður: Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur (2011), ásamt Guðna Elíssyni, og þýðingasafnið Kvikmyndastjörnur (2006). Þá hefur hún einnig gefið út ljóðabókina Við sem erum blind og nafnlaus árið (2015).

Blaðsíðufjöldi: 
468
Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-189-5
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201808
0

Sigurtunga

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason
Verð: 
5900

Þessi bók er safn greina um vesturíslenskt mál og menningu eftir tuttugu höfunda. Þær tengjast nýjum rannsóknum á máli og menningarlegri sjálfsmynd fólks af íslenskum uppruna í Vesturheimi og fjalla um sögu og bókmenntir vesturfaranna og þróun þeirrar íslensku sem hefur verið töluð vestra. Íslenskan í Vesturheimi, vesturíslenska, er svokallað erfðarmál, en svo nefnast þau mál sem innflytjendur og afkomendur þeirra tala í samfélagi þar sem annað tungumál er ríkjandi. Rannsóknir á eðli og örlögum slíkra mála hafa notið vaxandi vinsælda víða um heim á undanförnum árum og rannsóknir á vesturíslensku eru framlag til þeirra fræða. Í bókinni er að finna yfirlit um þessar rannsóknir og sögu og bókmenntir vesturfaranna og afkomenda þeirra. Þótt sumar greinarnar fjalli um flókin fræðileg efni er lagt kapp á framsetning þeirra sé aðgengileg, enda er bókin ætluð öllum þeim sem hafa áhuga á vesturíslenskum málefnum.

Ritstjórar eru Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, skrifar formálsorð.

Blaðsíðufjöldi: 
418
Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-191-8
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201811
0

Jarðvegur - Myndun, vist og nýting

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Þorsteinn Guðmundsson
Verð: 
6900

Jarðvegur er hvarvetna ein af undirstöðum búsetu en oft hefur jarðvegur landa eða landsvæða mikla sérstöðu og það á til dæmis við um Ísland. Bókin er í senn almennt fræðirit um íslenskan jarðveg þar sem leitast er við að vitna í nær allar heimildir þar sem fjallað hefur verið um íslenskan jarðveg á seinustu áratugum og um leið grundvallarrit til kennslu í jarðvegsfræði á háskólastigi.

Í bókinni er í meginatriðum fjallað um eftirfarandi efni: 

  • Jarðvegsmyndun og tengsl við umhverfið
  • Eðliseiginleika jarðvegs
  • Næringarefni
  • Ræktun og landnýtingu
  • Álag á jarðveg 
  • Flokkun jarðvegs, bæði innlenda og alþjóðlega
  • Mat á jarðvegi og landi

Bókin er handhægt og aðgengilegt uppsláttarrit fyrir þá sem koma að ákvörðunartöku um skipulag og nýtingu lands og fyrir alla sem hafa áhuga á náttúru landsins. 

Þorsteinn Guðmundsson er doktor í jarðvegsfræði frá háskólanum í Aberdeen og var kennari og síðan prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Áður starfaði hann við háskólann í Freiburg og tækniháskólann í Berlín í Þýskalandi.

Blaðsíðufjöldi: 
230
Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-160-4
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201834
0

Af hverju strái

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Árni Daníel Júlíusson
Verð: 
4900

Bókin fjallar um tímabil í Íslandssögunni sem fremur litla athygli hefur fengið. Viðfangsefni hennar eru af umhverfis- og félagssögulegum toga og skiptist bókin í fjóra hluta. Í fyrsta hlutanum er fjallað um viðhorf fræðasamfélagsins á 20. og 21. öld til umhverfis- og byggðasögu tímabilsins fyrir 1700, og bent á að frá því um 1930 hafi verið litið svo á að um 1100 hafi allir möguleikar til útþenslu landbúnaðar verið uppurnir. Þetta viðhorf sætti vaxandi gagnrýni eftir 1980 og bókin er ávöxtur af þeirri endurskoðun sem þá kom fram. Þrír síðari hlutar bókarinnar lýsa endurskoðun á hugmyndum um möguleika landbúnaðar á tímabilinu og bent er á  að til séu heimildir, einkum Íslenskt fornbréfasafn,sem sýni svo ekki verði um villst að eldra viðhorfið stenst ekki. Fyrst  er fjallað um byggð og fólksfjölda, aðallega frá 14. til 17. aldar. Þá er rætt  um landbúnaðarkerfi tímabilsins, áhrif þess á umhverfið og möguleika þess til vaxtar. Í lokahluta bókarinnar er bændasamfélagið sjálft tekið til skoðunar og staða þess í evrópsku samhengi, bæði með tilliti til lífskjara og landbúnaðarkerfis. Í heild dregur bókin upp nýja mynd af sambúð samfélags og náttúru á tímabilinu 1300–1700. Bókin er byggð á doktorsritgerð höfundar frá Kaupmannarháskóla og þeim viðbótarrannsóknum sem hann hefur gert á viðfangsefninu að loknu doktorsprófi.

 Dr. Árni Daníel Júlíusson hefur frá 1987 starfað sem sagnfræðingur við ritstörf, rannsóknir og kennslu. Hann er meðlimur ReykjavíkurAkademíunnar og starfar sem sérfræðingur við Hugvísindadeild Háskóla Íslands.

Blaðsíðufjöldi: 
298
Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-201-4
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201837
Stofnanir: 
0

Á vora tungu

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Ari Páll Kristinsson og Haukur Þorgeirsson
Verð: 
6900

Kristján Árnason, fv. prófessor við Háskóla Íslands, varð sjötugur 26. desember 2016. Þetta rit er gefið út honum til heiðurs í tilefni afmælis hans og starfsloka.

Bókin hefur að geyma úrval tímaritsgreina og bókarkafla eftir hann, 21 talsins. Um er að ræða efni sem birst hefur undanfarna þrjá til fjóra áratugi á ýmsum vettvangi, á Íslandi og erlendis. Fengur er að því að fá efnið nú saman- tekið í einu riti. Kristján hefur áður gefið út viðamiklar bækur, einkum um hljóðkerfi og bragfræði, en þessi bók fyllir inn í heildarmynd af rannsóknum hans. Jafnframt hefur Kristján nú bætt við inngangskafla þar sem hann setur efnið í samhengi og segir frá meginhugmyndum greina og kafla ritsins. Efninu er skipt í þrjá þætti: (I) Málvistfræði og kenningar, (II) Af málræktarfundum og (III) Hljóðþróun og málsaga.

Kristján Árnason starfaði við háskólakennslu og rann- sóknir í um 40 ár og vann ásamt fleirum að uppbygg- ingu íslenskra málvísinda. Jafnframt hefur hann getið sér framúrskarandi gott orð fyrir fræðistörf sín á alþjóða- vettvangi. Háskólakennsla hans spannaði meginsvið íslenskrar málfræði sögulega og samtímalega en ekki hvað síst hljóðkerfisfræði, bragfræði og félagslega málfræði. Kristján hefur einnig samið kennslubækur í íslenskri málfræði. Hann sat um árabil í Íslenskri mál- nefnd og var formaður hennar 1989–2001.

Blaðsíðufjöldi: 
424
Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-184-0
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201810
0

Safn til íslenskrar bókmenntasögu

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Guðrún Ingólfsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir
Verð: 
4500

Safn til íslenskrar bókmenntasögu er eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705−1779), fræðimann í Kaupmannahöfn. Jón ólst upp frá sjö ára aldri í Víðidalstungu í Húnaþingi hjá hjónunum Páli Vídalín lögmanni og Þorbjörgu Magnúsdóttur úr Vigur. Liðlega tvítugur að aldri fór hann til Kaupmannahafnar til að gerast skrifari Árna Magnússonar prófessors og handritasafnara. Meðfram starfi sínu hjá Árna stundaði Jón nám í guðfræði og lauk prófi vorið 1731. Hann starfaði þó alla tíð sem skrifari og fræðimaður, lengstum sem styrkþegi Árnanefndar, en dvaldi í nokkur ár á Íslandi um miðbik 18. aldar. Bókmenntasagan er eitt af ótalmörgum ritverkum Jóns sem varðveist hafa í handritum, en aðeins fáein hafa verið gefin út á prenti, flest þeirra á vegum félagsins Góðvinir Grunnavíkur-Jóns síðastliðna tvo áratugi eða svo.

Handritið er 205 blöð, nýlega tölusett með blýanti. Mörg laus blöð, seðlar og smápésar með viðbótum Jóns eru inni á milli og tölusett í samfellu við upprunalega handritið. Þá eru ókjör af utanmálsgreinum í handritinu sem höfundur hefur bætt við síðar. Með handritinu liggja auk þess ýmis fylgiskjöl, m.a. eiginhandarrit Steins Jónssonar biskups að sjálfsævisögu sinni og stutt uppkast Jóns Ólafssonar að bókmenntasögunni sem Jón Helgason gerir ráð fyrir að sé uppkast að dönsku ritsmíðinni sem Jón sendi Albert Thura.

Blaðsíðufjöldi: 
278
Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-199-4
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201830
0

The Moral Perspective

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Vilhjálmur Árnason
Verð: 
1990

Making moral decisions and settling ethical differences are two major and intertwined challenges of personal and professional life. In this book the author argues that adopting the moral perspective implies arriving at good decisions and dealing sensibly with disagreement through moral reasoning. He rejects moral subjectivism and shows how it is possible to provide and discuss reasons for ethical decisions by reference to moral goods and principles without lapsing into moral legalism.

Vilhjálmur Árnason is a professor of philosophy at the University of Iceland.

Blaðsíðufjöldi: 
104
Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-200-7
Útgáfuform: 
Efnisorð: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201832
Stofnanir: 
0

Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Kristján Jóhann Jónsson og Ásgrímur Angantýsson
Verð: 
5900

Bókin er byggð á rannsókn sem unnið var að á árunum 2013-2016 og var samstarfsverkefni tveggja háskóla, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Höfundar bókarinnar eru sjö íslenskukennarar við þessa skóla en þátt tóku auk þeirra meistara- og doktorsnemar við báða skólana. Verkefnið var unnið í samvinnu við starfandi kennara og stjórnendur í 15 grunnskólum og framhaldsskólum.

Staða íslenskrar tungu hefur verið mjög til umræðu síðustu mánuði, margir hafa áhyggjur af þróun hennar og mjög oft er skólakerfinu kennt um. Kveikjan að rannsókninni sem liggur til grundvallar, „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“ (ÍNOK) var þörfin á því að kanna stöðu íslenskukennslunnar, eins og hún er stunduð í skólum landsins.

Rannsóknin er einstök í sinni röð vegna þess að hún tekur til allra þátta íslenskukennslunnar og rannsakendur eru fagmenn á sviði íslenskukennslu. Fyrri rannsóknir á íslenskukennslu hafa fengist við afmörkuð svið hennar; skólamálfræði, áhrif samræmdra prófa, kennsluaðferðir, námskrárfræði og menningarlæsi leikskólabarna svo nokkuð sé nefnt. Allt rannsóknir sem mikill fengur er að en hér er dregin upp ný heildarmynd. Einnig er um þessar mundir unnið að viðamikilli rannsókn á áhrifum ensku á íslenska tungu og framtíð tungumálsins.

Rannsóknin á íslenskukennslu sýnir jákvætt og virðingarvert starf í grunn- og framhaldsskólum landsins en þar eru líka brestir og þörf á stefnumörkun sem byggð er á samstarfi við kennara.

 

Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-191-8
Útgáfuform: 
Efnisorð: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201817
0

Ójöfnuður á Íslandi

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson
Verð: 
6900

Háskólaútgáfan kynnir nýja bók, Ójöfnuður á Íslandi – Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi, eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson.

Bókin er afrakstur mikils rannsóknarstarfs sem höfundar hafa unnið að um nokkurra ára skeið. Þeir sækja í smiðjur alþjóðlegra rannsókna á þessu sviði og bera saman langtímaþróun á Íslandi við niðurstöður Thomas Piketty og félaga fyrir helstu vestrænu samfélögin. Höfundar styðjast  einnig við fjölda annarra alþjóðlegra rannsókna sem fram hafa komið á síðustu árum og nota víðtæk gögn frá OECD, Eurostat og Luxembourg Income Survey (LIS).

Ójöfnuður á Íslandi fjallar um hvernig tekju- og eignaskipting á Íslandi þróaðist frá millistríðsárunum til samtímans. Sýnt er hversu ójafnt tekjur og eignir skiptust fyrir stríð en urðu svo mun jafnari á eftirstríðsárunum. Í um hálfa öld voru Íslendingar, ásamt öðrum norrænum þjóðum, með einna jöfnustu tekjuskiptingu sem þekktist í heiminum. Þjóðfélagið tók síðan stakkaskiptum með verulegri aukningu ójafnaðar á rúmum áratug fram að hruni fjármálakerfisins árið 2008. Þau umskipti tengjast einkum breyttu þjóðmálaviðhorfi og nýjum aðstæðum sem eiga rætur að rekja til stjórnmála, hnattvæðingar og fjármálavæðingar.

Þetta er í senn saga mikilla umskipta og raunar mikillar sérstöðu íslensks samfélags. Meginmynstrið í langtímaþróun ójafnaðar á Íslandi var þó svipað og hjá mörgum vestrænum þjóðum, eins og fram kemur í rannsóknum Thomas Piketty og félaga. En sveiflur milli jafnaðar og ójafnaðar voru óvenjumiklar á Íslandi.

Bókin byggist á viðamiklum greiningum og alþjóðlegum samanburði á skiptingu tekna og eigna en þróun ójafnaðarins er sett í samhengi við einkenni íslenska samfélagsins til lengri tíma: atvinnuþróun, stjórnmál, stéttaskiptingu, hugarfar, kynjamun, skattamál, vinnumarkað, velferðarríki og þjóðarauð.

Stefán Ólafsson lauk meistaraprófi í þjóðfélagsfræðum frá Edinborgarháskóla og doktorsprófi frá Oxfordháskóla. Hann starfar sem prófessor við Háskóla Íslands.

Arnaldur Sölvi Kristjánsson lauk meistaraprófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og Toulouseháskóla og doktorsprófi frá Oslóháskóla. Hann starfar sem sérfræðingur við norska fjármálaráðuneytið í Osló.

Blaðsíðufjöldi: 
450
Útgáfuár: 
2017
ISBN: 
978-9935-23-129-1
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201627
0

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is