Háskóli Íslands

Frá Sýrlandi til Íslands. Arfur Tómasar postula

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Jón Ma. Ásgeirsson & Þórður Ingi Guðjónsson
Verð: 
ISK 5490 - Kilja
Háskóli Íslands
Tómasarguðspjall, Tómasarkver og Tómas saga postula eru rit tileinkuð heilögum Tómasi postula. Upphaflega er talið að guðspjallið, kverið og frumgerð Tómas sögu (Acta Thomae) hafi myndað fornan meið í frumkristni. Tvö fyrstu ritin hurfu af sjónarsviðinu eftir aldamótin 400 og voru óþekkt þar til þau fundust meðal Nag Hammadi-handritanna árið 1945. Íslenskir textar Tómas sögu postula hafa verið þekktir frá því á 12. öld og latnesk fyrirmynd þeirra frá því á fjórðu öld.
Hér eru þessi þrjú rit kennd við Tómas postula gefin út á einni bók, en öll eru þau talin eiga uppruna sinn í Sýrlandi, guðspjallið frá fyrstu öld, kverið á annarri öld og frumgerð sögunnar á þriðju öld. Guðspjallið og kverið voru bannfærð af kirkjuyfirvöldum  undir lok fjórðu aldar, en sagan lifði áfram í latneskum gerðum og þýðingum á þjóðtungur.
Bókin skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er að finna þrjá yfirlitskafla um Tómasarkristni. Í öðrum hluta eru formálar að útgáfum ritanna þriggja. Í þriðja og síðasta hluta eru ritin sjálf með lesbrigðaskrám og skýringum.
Sá meiður sem þessi rit mynda í flóru frumkristinna rita er einstakur. Hér fæst innsýn í sum elstu varðveitt ummæli Jesú frá Nasaret (guðspjallið) þar sem upprisa Jesú frá dauðum er hvergi nefnd. Það er ekki píslarvætti frelsarans sem er lykillinn að guðsríki heldur þekking. Helsti þrándur í götu mannsins að sannri þekkingu reynast vera ástríður holdsins (kverið) en ekki siðferðileg álitamál á vog syndar og aflausnar. Leiðin að þessari guðlegu þekkingu er ekki gjöf heldur þrotlaus barátta við öfl þessa heims (sagan), þar sem meinlæti og hófsemi verða tákn hinnar nýju kynslóðar Guðs.
Í Tómasarkristni gefur að líta eina af elstu túlkunum á persónu Jesú frá Nasaret og orðum hans. Sú túlkun átti ekki upp á pallborðið hjá kirkjulegum yfirvöldum á fjórðu öld né lengi síðan. En þessi rit eiga erindi til samtímans þar sem þröngsýni fortíðar víkur fyrir nýjum viðhorfum.
Blaðsíðufjöldi: 
406
Útgáfuár: 
2007
ISBN: 
978-9979-54-788-4
Efnisorð: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200751
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is