Háskóli Íslands

Háborgin

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Ólafur Rastrick
Verð: 
4900
Háskóli Íslands

Háborgin – menning, fagurfræði og pólitík í upphafi tuttugustu aldar fjallar um samband fagurfræði, menningar og umbótastjórnmála á Íslandi frá lokum nítjándu aldar og fram til um 1930.
Bókinni er ætlað að svara spurningum um hvaða hugmyndir mennta- og stjórnmálamenn gerðu sér um félagslegt hlutverk íslenskrar menningar á mikilvægu mótunarskeiði hennar. Einnig eru skoðuð áhrif stjórnmálamanna á menningarmál og hvernig þau birtust í mótun listastefnu, skipulagi höfuðstaðarins eða sviðsetningu alþingishátíðarinnar.

Greint er hvernig menningarstjórnmálum var ætlað að lyfta þjóðinni á hærra stig menningar og siðmenntunar og sýna henni sjálfri og umheiminum fram á að í landinu byggi menningarþjóð sem ætti sér tilverurétt í fullvalda þjóðríki sem þjóð meðal þjóða.

„Ólafur lýsir ekki bara grundvelli menningarstjórnmála þriðja áratugarins, hann lýsir því hvernig nokkrar helstu menningarstofnanir okkar urðu til og hvernig undarleg blanda hagsmunastjórnmála, tilviljana og siðferðishugmynda stýrðu íslenskum stjórnvöldum í menningarmálum og baráttunni fyrir betra samfélagi. Þessi rannsókn á erindi við alla sem hafa áhuga á menningar- og menntastefnu í fortíð og nútíð.“
Rósa Magnúsdóttir, Árósarháskóla

Ólafur Rastrick er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands og aðjúnkt í þjóðfræði við sama skóla. Rannsóknarsvið Ólafs er menningarsaga nítjándu og tuttugustu aldar og hafa birst eftir hann greinar í innlendum og erlendum ritum, s.s. um þátt postulínshunda í íslenskri menningarsögu og hugmyndir íslenskra menntamanna í byrjun tuttugustu aldar um fegurð og sálarlíf kvenna. Við Háskóla Íslands hefur Ólafur meðal annars kennt námskeið um menningararf, ómenningu og menningarsögu líkamans.
Háborgin er byggð á doktorsritgerð höfundar. Í henni eru nýlegar kenningar úr hug- og félagsvísindum notaðar til að greina hvernig stjórnvaldi var beitt til að móta menningu Íslendinga. Rannsóknin er söguleg athugun á menningarstefnu í mótun og dregur upp mynd af samspili menningar og samfélagslegs valds. Fræðilegt sjónarhorn hennar er sótt í hugmyndir franska heimspekingsins Michels Foucaults um eðli og einkenni stjórnvalds í nútímasamfélögum. Hugtakið stjórnvaldstækni, sem ættað er úr smiðju Foucaults, er notað skipulega til að kanna hvernig samfélagslegu valdi hefur verið beitt á óbeinan hátt til að skjóta stoðum undir, hafa áhrif á og hagnýta fagurlistir til þess að þróa og móta menningu Íslendinga í víðum skilningi.

Blaðsíðufjöldi: 
305
Útgáfuár: 
2013
ISBN: 
978-9935-23-013-3
Útgáfuform: 
Efnisorð: 
Tungumál: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is