Háskóli Íslands

Hávamál í ljósi íslenskrar menningar

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Hermann Pálsson
Verð: 
ISK 3200 - Kilja
Háskóli Íslands

Hávamál í núverandi mynd virðast stafa frá tólftu öld, en ýmsir hlutar þeirra eru þó langtum eldri og standa djúpum rótum í heiðnum sið. Þau geyma ekki einungis ævagamlar hugmyndir um Óðin, hinn forna guð skáldskapar og visku, heldur einnig sígildar kenningar um mannleg verðmæti, sem komnar eru sunnan úr álfu. 

Þegar Íslendingar tóku kristni á öndverðri elleftu öld hættu þeir að trúa á Óðin en neituðu þó að láta hann fyrir róða með öllu, enda héldu þeir áfram að njóta fornra goðsagna og goðakvæða, sem þeir varðveittu trúlega um nokkrar kynslóðir uns Snorri Sturluson gerði þær ódauðlegar í Gylfaginningu og Skáldskaparmálum, sem eru einhverjar dýrmætustu ritningar sem hér hafa verið skapaðar. 

Í Hávamálum er vikið að kynngimagnaðri sögu af Óðni sem hætti lífi sínu þegar hann stal skáldamiði frá jötnum og fló með hann í arnar líki heim í Ásgarð. Í þeirri för gisti Óðinn hjá Gunnlöðu Suttungsdóttur í Hnitbjörgum sem frægt er orðið. Hávamál láta ekki undir höfuð leggjast að minna rækilega á fjölkynngi Óðins. 

Svo telja fróðir menn að kjarni Hávamála sé fólginn í þeirri eldfornu speki að einstaklingar líða undir lok en mannkynið sjálft haldi þó áfram að vera til. Einhver helsti tilgangur þeirra er að fræða námsfúst fólk um listina að lifa og kenna því að meta vináttu, visku, gestrisni, orðstír, kurteisi, ástir, hófsemi, sælu og örlög. Hávamál eru eitt þeirra fornkvæða sem allir hugsandi Íslendingar ættu að kynnast sem best. 

Í þessari útgáfu er fjallað gaumgæfilega um hugmyndaheim Hávamála, og einnig er grafist fyrir um stöðu þeirra í íslenskum bókmenntum; sérstök áhersla er lögð á skyldleika þeirra og annarra kvæða undir ljóðahætti. 

Víðtækum skýringum er ætlað það hlutverk að gera lesendum auðvelt að átta sig á kvæðinu og um leið að hvetja þá til að virða fyrir sér kvæðið í ljósi annarra rita, sem hér voru sköpuð fyrr á öldum. 

Blaðsíðufjöldi: 
297
Útgáfuár: 
1999
ISBN: 
9979-54-362-0
Efnisorð: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U199908
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is