Háskóli Íslands

Lögberg - Rit Lagastofnunar Háskóla Íslands

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Ritstjórar: Stefán Már Stefánsson og Viðar Már Matthíasson
Verð: 
ISK 9200 - Harðspjaldabók
Háskóli Íslands
Rit þetta er safn greina um rannsóknarverkefni kennara við lagadeild Háskóla Íslands. Ritið er tileinkað Sigurði Líndal, sem var prófessor við lagadeild Háskóla Íslands frá 1972 til 2001 og forstöðumaður Lagastofnunar í 25 ár. 

Efni greinanna í ritinu er afar fjölbreytt og spannar mörg mikilvæg svið lögfræðinnar. Það er afrakstur rannsókna, sem höfundar greinanna hafa sinnt, og bera því glöggt merki, hvað rannsóknarverkefni í lögfræði eru í raun margvísleg. Er mikilvægt að lögfræðingar birti niðurstöður rannsókna sinna, ekki síst í nýrri greinum, sem stór hluti lögfræðinga hefur ekki lagt stund á og því brýnt að þeir eigi þess kost að fylgjast með þróuninni á þeim sviðum. Langflestar greinar ritsins eru ritrýndar og eykur það gildi þess.

Í ritinu er að finna 23 greinar, bæði eftir fasta kennara lagadeildar HÍ og stundakennara. Nokkrar eru á sviði stjórnsýsluréttarins, m.a. um meðalhófsregluna og andmælaregluna. Fjallað er um beitingu Hæstaréttar á lögunum um mannréttindasáttmála Evrópu og áhrif meðalhófsreglu við skýringu stjórnarskrárákvæða. Nefna má greinar um tölvupóst starfsmanna og einkalífsvernd, notkun söluveðs í viðskiptum birgja, réttaröryggi fatlaðra á Íslandi, alþjóðlegar skuldbindingar um loftslagsbreytingar með hliðsjón af íslenskum rétti, hlutverk verjanda, réttindi hans og skyldur og gallahugtak laga um fasteignakaup. Þá er umfjöllun um kynferðisbrot skv. 196. gr. hgl., ákvæði 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar um bann við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og grein um staðreyndavillu og aberratio ictus. Á sviði eignaréttar er m.a. fjallað um afstöðu dómstóla til sönnuargildis máldaga varðandi eignarrétt á landi og íslenska fiskveiðistjórn og rétt eigenda sjávarjarða til fiskveiða. Evrópuréttinum eru gerð skil í greinum um vanda smáþjóða í evrópsku samstarfi og jafnræðisregluna og áhrif hennar á frjálsa för fólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Gerð er grein fyrir Alþjóðavinnumálastofnuninni og áhrifum samþykkta hennar á íslenskan rétt og Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og rétti ríkja til að beita vopnavaldi samkvæmt reglum þjóðaréttarins. Fjallað er um réttarsöguna í grein um hugleiðingar og tillögur Þorsteins sýslumanns Magnússonar varðandi endurskoðun Jónsbókar.

Blaðsíðufjöldi: 
796
Útgáfuár: 
2004
ISBN: 
9979-54-573-9
Efnisorð: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200403
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is