Háskóli Íslands

Menntun, forysta og kynferði

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Guðný Guðbjörnsdóttir
Verð: 
ISK 4300 - Kilja
Háskóli Íslands

Hvaða máli skiptir menntun fyrir framgang kvenna og karla til forystustarfa? Þessi spurning hefur verið áleitin í kvennabaráttunni og í fræðunum allt frá dögum fyrsta femínistans Mary Wollstonecraft. Með annarri bylgju femínismans urðu kvenna- og kynjafræðin til og brátt kom fram sú krafa að konur stýrðu sjálfar þeirri menntun sem þær fengu. Lögð var rík áhersla á jafnrétti kynjanna í skólastarfi á 8. og 9. áratug síðustu aldar en fyrir nokkrum árum tók umræðan óvænta stefnu og beindist að stöðu drengja í skólum. Hvað gerðist eiginlega? Hvernig stendur á því að þrátt fyrir framgang kvenna í menntakerfinu gengur þeim hægt að ná fram jafnrétti í launum og völdum? Þetta eru helstu viðfangsefnin sem tekist er á við í þessari bók um menntun, forystu og kynferði. Hér er greint frá rannsóknum höfundar á þessu sviði síðustu tuttugu ár. Þar sem um er að ræða safn greina frá þessu tímabili skín tíðarandinn í gegn. Því má líta á verkið sem greiningu á orðræðunni um menntun, forystu og kynferði undanfarin ár. 

Bókin er ætluð nemendum í uppeldis- og sálarfræðum, kennslufræði og kynjafræði, kennurum, foreldrum, stjórnmálamönnum, fjölmiðlafólki og öllum þeim sem hafa áhuga á þeirri mikilvægu spurningu hvers konar menntun þegnunum er boðið upp á í lýðræðisþjóðfélagi á tímum hnattvæðingar og nýfrjálshyggju, hvernig megi bæta hana og hvað annað en menntun skýri hægan framgang kvenna til valda og forystu. 

Höfundur er prófessor í uppeldis- og menntunarfræði í félagsvísindadeild Háskóla Íslands . Hún er menntuð í sálarfræði og uppeldis- og menntunarfræði í Bandaríkjunum (BA) og í Englandi (MSc. Ph.D). Helstu rannsóknir höfundar hafa beinst að vitrænum þroska barna og unglinga, menningarlæsi ungs fólks og fullorðinna, og að menntun, forystu og kynferði.

Blaðsíðufjöldi: 
325
Útgáfuár: 
2007
ISBN: 
978-9979-54-768-6
Efnisorð: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200727
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is