Ritið: 1/2012 - Menningarsaga

Ritstjóri/ar/Höfundur/ar: 
Sólveig Anna Bóasdóttir og Þröstur Helgason

Í því er rýnt í menningarsöguna út frá ólíkum sjónarhornum hugvísindanna.  Í fyrstu greininni er komið inn á það viðkvæma þjóðernispólitíska samhengi sem þátttaka Íslands í bókasýningunni í Frankfurt var sett í með upphafningu fornsagnaarfsins og óbeislaðrar náttúrunnar og vísunum
til velvildar Þjóðverja gagnvart hvorutveggja. Ann-Sofie Nielsen Gremaud bendir
á að þótt bókasýningin geti tvímælalaust átt þátt í því að móta ímynd Íslands
um stundarsakir þá orki sú áhersla sem lögð var tvímælis. Ólafur Rastrick hugar
einnig að sjálfsmynd þjóðarinnar en út frá öðru sjónarhorni. Í samanburði við
evrópska menningarsögu virtist hin íslenska full af eyðum sem krafa var gerð um
að fylla í kjölfar fullveldis þjóðarinnar 1918. Metnaður Íslendinga var að vera
menningarþjóð á meðal menningarþjóða en svo virtist sem lágkúrulegar afurðir
erlendrar alþýðumenningar hefðu afvegaleitt hana. Ein helsta táknmynd
smekkleysunnar var postulínshundurinn sem stillt hafði verið upp á kommóðum fjölda
sveitaheimila. Í þriðju þemagreininni leiðir Þröstur Helgason svo getum að því
að þjóðernisleg íhaldssemi hafi verið ástæða þess að módernismi átti ekki upp á
pallborðið á Íslandi fyrr en eftir lýðveldisstofnun árið 1944.

Myndaþáttur heftisins er eftir Einar Fal Ingólfsson og heitir „Söguslóðir – Úr Njáls sögu“.
Hann kallast skemmtilega á við þema heftisins, ekki síst grein Ann-Sofie.
Myndirnar fimm, sem eru hluti af stærra verki, sýna forvitnilegt samspil
samtíma og (bókmennta)sögulegrar fortíðar.

Í heftinu eru birtar þrjár greinar utan þema. Henry Alexander Henryson fjallar um
skynsemina í náttúrunni og náttúrulega skynsemi. Daisy Neijmann varpar nýju
ljósi á þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar um blaðamanninn Pál Jónsson út frá
sjónarhorni minnisrannsókna. Og Ásta Kristín Benediktsdóttir fjallar um
skáldsögu Jakobínu Sigurðardóttur, Lifandi
vatnið
–––, út frá kenningum um fjölradda frásagnir.

Útgáfuár: 
2012
Blaðsíðufjöldi: 
186
ISBN: 
978-9979-54-966-6
Verknúmer: 
U201212
Verð: 
3290