Ritið 1 2014

Ritstjóri/ar/Höfundur/ar: 
Guðrún Björk Guðsteinsdótti, Úlfar Bragason og Björn Þorsteinsson

Ímyndir, sjálfsmyndasköpun, varðveisla íslensks menningararfs og þvermenningarleg yfirfærsla eru áleitin efni í greinunum sem valdar voru í þetta hefti Ritsins um Vesturheimsferðir í nýju ljósi. Það er þó aðeins þriðja alda íslenskra útflytjenda til Ameríku eftir miðja nítjánda öld sem er nafngreind með þeim hætti að ætla mætti að ekkert rof hafi orðið við búferlaflutning þeirra til annarrar heimsálfu – þeir hafi áfram verið Íslendingar. Fyrstu „vesturfararnir“ kölluðust Utah-farar eða mormónar, þá komu Brasilíufarar, en þegar Íslendingar fluttu unnvörpum til Bandaríkja Norður-Ameríku og Kanada varð skyndilega útvíkkun á þjóðarvitund Íslendinga og Ísland sjálft endurnýjaðist: það urðu til Vestur-Íslendingar og Nýja Ísland.
Sex fræðilegar greinar eru í Ritinu um meginþema þess. Jón Hjaltason veltir fyrir sér hvers vegna stórflutningar Íslendinga til Brasilíu mistókust og Eyrún Eyþórsdóttir og Kristín Loftsdóttir skoða hvaða þátt íslensk arfleifð á í sjálfsmynd afkomenda Brasilíufaranna. Ólafur Arnar Sveinsson rannsakar hvernig sendibréf vesturfara geta leitt í ljós þróun einstaklingsbundinnar sjálfsmyndasköpunar, „í baráttu við nýja heimalandið og togstreitu við það gamla“. Ágústa Edwald fjallar um fornleifarannsóknir sínar á bænum Víðivöllum í Nýja Íslandi. Dagný Kristjánsdóttir veitir í grein sinni innsýn í viðhorf til bernskunnar sem lesa má úr íslenskum barnablöðum sem gefin voru út í Vesturheimi á árunum 1898–1940. Úlfar Bragason kannar mismunandi þjóðlegar sjálfsmyndir hjá Íslendingum og Vestur-Íslendingum í tengslum við lýðveldisstofnunina 1944.
Einnig er í Ritinu þýðing á grein eftir rithöfundinn Kristjönu Gunnars um hugmyndir um „eignarnám“ eða „yfirtöku“ á rödd og sjálfsmynd á milli menningarhópa þegar innflytjendur eða jaðarinn aðlagast menningu miðjunnar.Þá eru í þessu Riti hugleiðingar Guðbergs Bergssonar um það hvernig Íslendingaslóðir í Kanada, sem ímyndunaraflið, jólablöðin og munnmæli höfðu skapað á uppvaxtarárum hans, reyndust vera þegar hann sjálfur fór þangað. Ritið birtir fjölda ljósmynda eftir Guðmund Ingólfsson sem hann tók í Íslendingabyggðum vestra 1994. Forsíðumynd Guðmundar frá Mountain í Norður-Dakóta frá 1999 sýnir glögglega að víkingaarfleifðin er sameiginleg afkomendum Íslendinga í Vesturheimi og Austur-Íslendingum.Að lokum er í Ritinu utan þema þess svargrein Írisar Ellenberger og Svandísar Önnu Sigurðardóttur við umræðugrein Ármanns Jakobssonar um gleðigönguna Gay Pride, sem var birt í síðasta hefti Ritsins 2013.

Útgáfuár: 
2014
Blaðsíðufjöldi: 
202
ISBN: 
978-9935-23-043-0
Verknúmer: 
U201417
Verð: 
3290