Ritið 2/2012 - Kirkja í krísu

Ritstjóri/ar/Höfundur/ar: 
Sólveig Anna Bóasdóttir og Þröstur Helgason

Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 2/2012 er komið út og er vandi kirkjunnar þema heftisins – krísan sem hún stendur frammi fyrir – í fortíð, nútíð og framtíð. Fjórir höfundar sem allir eru guðfræðingar fjalla um efnið frá ólíkum sjónarhornum og greina orsakir jafnt sem afleiðingar þeirra krísa sem um er fjallað. Sameiginlegt stef þemagreinanna er að krísa sé ekkert nýtt í kirkjulegu samhengi, allra síst í hinu evangelísk-lútherska kirkjudeildarsamhengi sem íslenska þjóðkirkjan tilheyrir.

Í fyrstu þemagreininni fjallar Hjalti Hugason um á hvern hátt evangelísk-lútherska þjóðkirkjan á Íslandi brást við nútímanum um aldamótin 1900 og fram yfir miðja 20. öld, ásamt því að velta fyrir sér stöðunni við upphaf 21. aldar. Grein Sigurjóns Árna Eyjólfssonar dregur upp mynd af íslensku þjóðkirkjunni nú um stundir með áherslu á kirkjuskilning þekktra samtímaguðfræðinga. Sólveig Anna Bóasdóttir fjallar um kirkjuna sem hina alþjóðlegu kirkjustofnun, einstakar kirkjur og íslensku þjóðkirkjuna og telur að hún standi frammi fyrir afgerandi vali sem snýst um hvort hún treysti sér í róttæka endurskoðun á gagnkynhneigðarhyggju kristinnar hefðar. Í fjórðu þemagreininni beinir Pétur Pétursson sjónum að tveimur helstu krísum íslenskrar kirkjusögu frá einveldi til lýðveldis.

Í heftinu eru birtar fjórar greinar utan þema. Benedikt Hjartarson fjallar um yfirlýsingar evrópsku framúrstefnunnar og galdratrú í rússneskum fútúrisma og symbólisma. Björn Ægir Norðfjörð veltir upp kostum þess og göllum að skilgreina kvikmynd á borð við The King of Kings sem Jesúmynd. Heiða Jóhannsdóttir beinir sjónum að fyrstu bresku fræðslumyndunum sem ætlað var að stuðla að forvörnum gegn kynsjúkdómum. Og Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson fara ofan í saumana á útrásardraumum Hallgríms og draga fram á hvaða hátt þeir beinast að íslensku listalífi og greinast frá algengari yfirlýsingum stjórnmálamanna og fjármálagreifa um efnahagsvöxt.

Ein þýdd grein er birt í heftinu, „Glötun og endurheimt sköpunarverksins í kristinni hefð“, eftir kaþólska guðfræðinginn Elizabeth A. Johnson. Þar boðar hún það sem kalla má lífhyggjuguðfræði og siðfræði, gegn hefðbundinni, mannmiðlægri kristinni guðfræði. Líf-hyggjan leggur áherslu á að náttúran og lifandi verur aðrar en maðurinn hafi líka sjálfstætt gildi og Johnson telur að þessa skoðun megi rökstyðja út frá kristinni sköpunartrú: Ekki aðeins allir menn, heldur allt líf er skapað af Guði. Allt líf er gott í sjálfu sér, ekki bara líf mannsins.

Útgáfuár: 
2012
Blaðsíðufjöldi: 
226
ISBN: 
978-9979-54-971-0
Verknúmer: 
U201219
Verð: 
3290