Háskóli Íslands

Ritið: 2/2005 - Útlönd - Tímarit Hugvísindastofnunar

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir ritstj.
Verð: 
ISK 2800 - Kilja
Háskóli Íslands

Þema Ritsins 2/2005 er Útlönd. Þar er tekist á við samband menningarheima á ýmsan máta, ímyndir og sjálfsmyndir þjóða. Meðal efnis í heftinu er grein eftir Kristínu Loftsdóttur mannfræðing sem fjallar um ímynd Afríku á Íslandi á 19. öld en Kristín sýnir hvernig sú ímynd kallast á við ímynd hins sjálfstæða eyríkis, Íslands, sem þá var í fæðingu.Sverrir Jakobsson fjallar um sjálfsmynd miðaldamanna í greininni Við og hinir – hvernig gerðu Íslendingar mannamun á miðöldum? en þar hugar Sverrir að þeim þáttum sem ætla má að hafi skipt máli fyrir sjálfsmynd menntaðra Íslendinga á miðöldum. Í grein sinni Íslenska og enska. Vísir að greiningu á málvistkerfi leggur Kristján Árnason út af nýlegri könnun á viðhorfum Íslendinga til ensku og spyr hvort staða íslenskunnar í menningu og sjálfsmynd landsmanna sé að breytast. Rósa Magnúsdóttir tekur ímyndir og áróður Kalda stríðsins til skoðunar í grein um heimsókn íslensks æskufólks á heimsmótið í Moskvu 1957 og í grein Hólmfríðar Garðarsdóttur er sjónum beint sérstaklega að stöðluðum kvenímyndum í suður-amerískri bókmenntahefð og vakin athygli á því hvernig þær megi rekja til landvinninga- og heimsvaldastefnu fyrri alda. Svanur Kristjánsson skoðar afskipti fjögurra forseta Íslands af utanríkismálum í grein sem hann nefnir Forsetinn og utanríkisstefnan en hún er jafnframt innlegg í umræður um túlkun 26. greinar stjórnarskrárinnar.
Þá eru birtir bókarkaflar eftir tvo prófessora við Harvardháskóla, stjórnspekinginn Seylu Benhabib og bókmenntafræðinginn Homi K. Bhabha en í þeim er meðal annars leitast við að svara því hvernig bregðast eigi við þeim árekstrum sem óhjákvæmi-lega verða í samfélagi fólks sem kemur úr ólíkum menningaraðstæðum – og jafnframt spurt hvernig samfélagið njóti góðs af blöndunni, hvernig hún verði aflvaki nýrrar skapandi menningar.
Í myndverkinu Grautur – 12 tilbrigði vinnur Áslaug Thorlacius myndlistarmaður með uppskriftir að súpum og grautum úr bók Helgu Sigurðardóttur, Matur og drykkur, og veitir með því einstæða sýn inn í dansk-íslenska matarmenningu Íslendinga á 20. öld. Þá eru í heftinu birtar þrjár ljóðaþýðingar eftir Þorstein Gylfason ásamt minningarorðum um hann sem Vigdís Finnbogadóttir ritar.

 

Hægt er að gerast áskrifandi að Ritinu á vefsíðu þess: www.hugvis.hi.is/ritid

Blaðsíðufjöldi: 
270
Útgáfuár: 
2006
ISBN: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200603
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is