Háskóli Íslands

Ritið: 2/2006 - Líkingar - Tímarit Hugvísindastofnunar

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Ritstj.: Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Ólafur Rastrick
Verð: 
ISK 2800 - Kilja
Háskóli Íslands

Annað hefti árgangsins 2006 er helgað líkingum. Í heftinu er að finna alls sex frumsamdar greinar, tvær þýddar fræðigreinar, ljóðaþýðingar og myndverk. Fjórar frumsömdu greinanna fjalla um þema heftisins: Bergljót Soffía Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum bókmenntum notar greiningu á dróttkvæðum vísum í Gísla sögu til að sýna fram á hvernig nýr skilningur á metafórum getur varpað ljósi á íslenskan miðaldakveðskap; Guðrún Lára Pétursdóttir bókmenntafræðingur gerir grein fyrir því hvernig myndlíkingar birtast í tungumáli læknavísindanna; Ingi Björn Guðnason bókmenntafræðingur fjallar um skáldsögu Rögnu Sigurðardóttur og hvernig umræða um borgina er bundin fjölþættu líkingamáli; loks kannar Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur tengsl líkama og véla, orðræðu sæborgarinnar, og kynjaðar myndir líkingamálsins sem þar birtist. 
Að venju birtir Ritið þýddar greinar sem tengjast þemanu. Að þessu sinni eru það greinar eftir bókmenntafræðingana Paul de Man og Margaret H. Freeman. Bæði störfuðu þau við bandaríska háskóla en eru fulltrúar ólíkra hefða; de Man var einn af forsprökkum póst-strúktúralískrar nálgunar í Bandaríkjunum á meðan Freeman þróar í þeirri grein sem hér birtist aðferðafræði sem hún nefnir hugræn skáldskaparfræði. 
Auk þemagreinanna birtast í Ritinu greinar eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur bókmenntafræðing og Svan Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði. Alda Björk beitir nálgun sálgreiningar við lestur á Tímaþjófinum eftir Steinunni Sigurðardóttur og Svanur fjallar um hugmyndir Íslendinga um lýðræði á árunum kringum aldamótin 1900 eins og þær birtast í umræðum um kosningar til bæjarstjórna og beinnar kosningar borgarstjóra Reykjavíkur. 
Þá birtir Ritið tvö ljóð kanadíska rithöfundarins Michael Ondaatje í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar og myndverk Hrafnkels Sigurðssonar, Speglað sorp. 

Ritið kemur út þrisvar sinnum á ári. Þeir sem vilja gerast áskrifendur eru beðnir að snúa sér til Margrétar Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar (mgu@hi.is). 

Blaðsíðufjöldi: 
229
Útgáfuár: 
2007
ISBN: 
978-9979-54-750-1
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200713
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is