Háskóli Íslands

Ritið: 3/2003 - Dauðinn - Tímarit Hugvísindastofnunar

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Guðni Elísson og Jón Ólafsson ritstjórar
Verð: 
ISK 2800 - Kilja
Háskóli Íslands

Að vanda er efni Ritsins af fjölbreyttu tagi: frumsamdar fræðigreinar, þýddar ritgerðir, og umfjöllun um bækur og listir. Meginþema heftisins að þessu sinni er Dauðinn. Álfrún Gunnlaugsdóttir fjallar um frásagnir þeirra sem lifðu af vist í fangabúðum nasista, m.a. um bók Leifs Muller, Íslendings sem var tvö ár í Sachsenhausen og gaf út bók um reynslu sína strax 1945. Leiðir Álfrún rök að því að þessi bók hafi verið sú fyrsta sem kom út í Evrópu um þessa reynslu. Úlfhildur Dagsdóttir skrifar um uppvakninga sem minni í nútímamenningu og tengsl þess við önnur menningarfyrirbæri, eins og t.d. pönkið.

Jens Lohfert Jørgensen glímir við dauðann í verkum danska rithöfundarins J. P. Jacobsen út frá kenningum franska hugsuðarins Maurice Blanchot og veltir því fyrir sér hvort hlutverk skáldskaparins sé ekki öðrum þræði að tákngera dauðann, þ.e. tjá það tóm sem dauðinn er. Guðni Elísson tekur til umfjöllunar ljóðlist Steinunnar Sigurðardóttur í tvöföldu ljósi langrar hefðar tregaljóða í vestrænum bókmenntum og þess uppbrots á hefðinni sem felst í nýrri stöðu konunnar sem skálds en ekki lengur þess tákns sem skáldið af karlkyni yrkir um.

Birtar eru myndir af innsetningu Magnúsar Pálssonar og Helgu Hansdóttur „Viðtöl um dauðann“ í Listasafni Reykjavíkur á sl. hausti og ritgerð Gunnars J. Árnasonar um innsetninguna. Einnig fjallar Jón Ólafsson um fimm bækur sem komið hafa út í Svörtu línunni, nýrri ritröð bókaútgáfunnar Bjarts, bækur Braga Ólafssonar, Hermanns Stefánssonar, Jaakko Heinimäki, Jóns Karls Helgasonar og Þrastar Helgasonar. Laxdæla saga er til umfjöllunar í grein Péturs Knútssonar sem túlkar ástarþríhyrning Guðrúnar Ósvífursdóttur, Kjartans Ólafssonar og Bolla Þorleikssonar í ljósi írsks fornkvæðis. Eins og í öðrum heftum Ritsins er lesendum boðið upp á vandaðar þýðingar á fræðilegum ritgerðum. Að þessu sinni er það grein heimspekingsins Michael Theunissens um „nærveru dauðans í lífnu“ og kafli úr riti bókmenntafræðingsins Elisabeth Bronfen Over her dead body sem fjallar um tengsl dauða, listar og kvenleika.

Hægt er að gerast áskrifandi að Ritinu á vefsíðu þess: www.hugvis.hi.is/ritid

Blaðsíðufjöldi: 
107
Útgáfuár: 
2004
ISBN: 
1670-0139
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200416
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is