
Ritið 3/2004 ber yfirskriftina FALSANIR og þar er fjallað um blekkingar, dulargervi og fals, einkum á sviði bókmennta og lista. Birtar eru myndir af nokkrum þeim verkum sem komu við sögu í Stóra málverkafölsunarmálinu og ólíkum hliðum málsins velt upp í greinum þeirra Erlu S. Árnadóttur hæstaréttarlögmanns og Áslaugar Thorlacius myndlistarmanns.
Byron lávarður er umfjöllunarefni Guðna Elíssonar sem í grein sinni fléttar saman útgáfusögu verka skáldsins og og margvíslegum tilgangi á bak við nafnlausar útgáfur verka hans. Í greininni „Í hverju felast breytingarnar og hvað fela þær?“ fjallar Soffía Auður Birgisdóttir um klausturdagbækur Halldórs Laxness og þær breytingar sem skáldið gerði á þeim fyrir útgáfu þeirra rúmum sextíu árum síðar.
Í grein Gunnþórunnar Guðmundsdóttur „Eins og þessi mynd sýnir... Falsaðar ljósmyndir og skáldskapur á ljósmynd“ er heimildagildi ljósmyndarinnar tekið til umfjöllunar og jafnframt tekin dæmi af notkun ljósmynda í skáldverkum. Þá skrifar Hermann Stefánsson um bókina Ólöf eskimói og ber saman við aðrar frásagnir af fólki sem siglir undir fölsku flaggi og Jón Ólafsson fjallar um stuld og svindl í vísindasamfélaginu í grein sem hann nefnir „Fölsuð fræði“. Að auki birtist í heftinu grein eftir þær Önnu Þorbjörgu Ingólfsdóttur og Elsu Sigríði Jónsdóttur um veruleika og upplifun fólks af erlendum uppruna sem sest hefur að hérlendis. Loks birtast í þessu hefti Ritsins þýðingar á tveimur lykilgreinum á sviði þýðingafræði: „Um málvísindalegar hliðar þýðinga“ eftir Roman Jakobson og „Um turna Babel“ eftir Jacques Derrida.
Hægt er að gerast áskrifandi að Ritinu á vefsíðu ritsins: www.hugvis.hi.is/ritid |
|||||||