Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur

Ritstjóri/ar/Höfundur/ar: 
Guðný Hallgrímsdóttir

Sagan sem sögð er þessari bók byggist meðal annars á sjálfsævisögubroti sem varðveist hefur og ber titilinn Ævisaga Guðrúnar Ketilsdóttur. Guðrún fæddist árið 1759 og er saga hennar líklega elsta varðveitta sjálfsævisaga íslenskrar alþýðukonu – vinnukonu frá 18. öld. Í sögunni fjallar Guðrún á opinskáan hátt um líf sitt í Eyjafirðinum og erfitt hjónaband með ótrúum eiginmanni. Frásögnin er full af einlægum og litskrúðugum lýsingum á mönnum og málefnum. Í bókinni er fjallað um líf þessarar merkilegu alþýðukonu og hvernig hún náði, þrátt fyrir afar þrönga stéttarstöðu sína, að hasla sér völl í erfiðu árferði móðuharðindanna. Höfundur notar aðferð einsögunnar til að draga fram lífsferil hennar; fylgir aðalpersónunni eftir um grýtta götu samfélagins. Þrátt fyrir allt kemst Guðrún heilu og höldnu um þau svipugöng. Döpur endalok ævi Guðrúnar dregur þó fram hið harmsögulega í lífi þúsunda Íslendinga á þessum tíma. 

Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur lauk M.A.-prófi frá Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands 2009 en lokaritgerð hennar bar heitið: „Hulda. Sjálfstjáning kvenna á 18. og 19. öld.“ Guðný hefur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni frá árinu 2003 og unnið að margvíslegum verkefnum tengdum handritum kvenna. Árið 2013 birtist grein eftir hana í bókinni White Field, Black Seeds sem bar heitið, „Material without Value? The Recollections of Guðrún Ketilsdóttir.“ Guðný stundar nú doktorsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands þar sem hún heldur áfram rannsóknum sínum á sjálfsmynd íslenskra alþýðukvenna á 18. og 19. öld. Hún situr í stjórn Sagnfræðingafélags Íslands og hefur áður verið í stjórn Félags íslenskra fræða. 

Útgáfuár: 
2013
Blaðsíðufjöldi: 
173
ISBN: 
978-9935-23-019-5
Verknúmer: 
U201338
Verð: 
4500