Tvær tilnefningar til Fjöruverðlauna 2014

Tilkynnt var um tilnenfningar til Fjöruverðlauna á Borgarbókasafni Reykjavíkur í gær. Tvær bækur Háskólaútgáfunnar voru meðal þeirra verka sem tilnefnd voru.

Önnur skynjun – ólík veröld. Lífsreynsla fólks á einhverfurófi eftir Jarþrúði Þórhallsdóttur.
Í umsögn dómnefndar segir: Bókin er skrifuð af næmum skilningi á einhverfu. Stíll Jarþrúðar er blátt áfram og yfirlætislaus, auðlesinn og auðskilinn og í honum liggur einn meginstyrkur bókarinnar, ásamt nálgun hennar á viðfangsefnið. Persónuleg viðhorf Jarþrúðar taka ekki yfir frásögnina en lesandinn er meðvitaður um þægilega hlýju gagnvart viðfangsefninu. Bókin dregur upp margþætta og sannfærandi mynd af lífu einhverfra og dregur lesandann nær heimi þeirra. Hún ætti að verða aðstandendum einhverfra styrkur og leiðsögn og veita öðrum innsýn í veruleika einhverfra einstaklinga.

Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu eftir Guðnýju Hallgrímsdóttur.
Í umsögn dómnefndar segir: Með vinnslu Guðnýjar á ólíkum heimildum tengdum textabrotinu birtist lesandanum frásögn af skrykkjóttri lífsgöngu í skugga móðuharðinda þar sem Guðrún Ketilsdóttir glímir m.a. við fátækt , ágenga karlmenn og erfiða húsbændur. Hún upplifir einnig hamingjustundir á flakki sínu í vinnumennsku, m.a. á grasafjalli í Mývatnssveit, og tekst að ávinna sér virðingu fólks með dugnaði og heiðarleika. Gæfan er hins vegar fallvölt og við heyrum jafnframt hvernig Guðrún missir flest allt frá sér og er sem gömul kona aðeins ,,Skrattans kerlingin hún Guðrún Ketilsdóttir”.

Þáttur Kvenna, ekki síst alþýðukvenna, í íslenskri söguritun hefur jafnan verið rýr. Guðný sýnir hvernig hægt er að gera áhugaverða sögu úr heimild sem virðist harla brotakennd og hafði af mörgum fyrri fræðimönnum verið talin lítils virði.