Háskóli Íslands

Ungmenni og ættartengsl

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna Rósa Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir
Verð: 
ISK 1990 - USD - Kilja
Háskóli Íslands

Rannsókn um reynslu og sýn skilnaðarungmenna.

Í bókinni er greint frá umfangsmikilli rannsókn Dr. Sigrúnar Júlíusdóttur
meðal nemenda í þriðja bekk framhaldsskóla um ungt fólk og
fjölskyldugildi, en hér er athygli sérstaklega beint að þeim hluta
niðurstaðna sem snerta viðhorf og eigin reynslu ungmenna af skilnaði
foreldra og um kynslóðatengsl. Hún hefur tengt niðurstöður rannsókna
sinna áratuga klíniskri reynslu með einstaklingum og fjölskyldum og
kynnt þær með greinaskrifum og í fyrirlestrum hér á landi og erlendis.
Árlega
upplifa rúmlega 1000 börn á Íslandi skilnað foreldra en slík reynsla er
oftast áfall fyrir fjölskylduna, ekki síst börnin. Með því að láta
raddir þeirra heyrast fæst öðruvísi innsýn og skilningur á aðstæðum
þeirra, óskum og líðan. Í bókinni Ungmenni og ættartengsl er einnig gerð
grein fyrir íslenskum og erlendum rannsóknum á því efni. Niðurstöður
rannsóknarinnar sýna meðal annars að mörg barnanna hafa reynslu af
breytingum eins og búsetuskiptum, lakari fjárhag , aukinni ábyrgð og
minni fjölskyldustuðningi en líka fjölbreytilegum tengslamynstrum.
Móðirin virðist gegna áfram lykilhlutverki í lífi barnanna. Hlutverk
föðurins virðist verða óljósara og tengsl barnsins við hann veikjast.
Eftir skilnað telja börnin hann ekki lengur til síns nánasta kjarna og
þau hafa síður áhyggjur af aðstæðum hans og framtíðarmöguleikum en móður
sinnar.
Ömmur og afar beggja foreldra gegna mikilvægu hlutverki í
lífi hvers barns. Í rannsókninni kom fram að við skilnað dregur úr
samskiptum við föðurömmur og föðurafa. Í tilvikum sem stuðningur
móðurfjölskyldu er lítill virðist ekki vera meiri stuðningur frá
föðurfjölskyldu.
Þá sýna niðurstöður að ungmenni vilja almennt eiga
gott samband við foreldra sína, óska eftir að verja meiri tíma með þeim
og vildu að foreldrar tækju meiri þátt í lífi þeirra. Skilnaðarbörn óska
í meira mæli en önnur eftir auknum fjölskyldusamskiptum.
Bókin á
erindi til fræðimanna og fagfólks í meðferðarstörfum, nemenda í
félagsráðgjöf og skyldum greinum. Hið vandaða yfirlit um rannsóknir og
umfjöllun höfunda sem eru sérfræðingar í skilnaðarmálum nýtist vel
almenningi sem vill kynna sér aðstæður skilnaðarbarna og hlusta á raddir
þeirra sjálfra.

Blaðsíðufjöldi: 
76
Útgáfuár: 
2008
ISBN: 
978-9979-9859-1-4
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200813
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is