Stjórnmálafræði

Elítur og valdakerfi á Íslandi

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Gunnar Helgi Kristinsson
Verð: 
5900

Elítum er oft stillt upp sem óvinum alþýðunnar í pólitískri orðræðu samtímans. Þeim er lýst sem þröngum hópum fólks sem ráði raðum sínum í pólitískum skúmaskotum á kostnað hins hreinlynda og óspillta almennings. Popúlistar, bæði á hægri og vinstri væng stjónmálanna, líta svo á að átakaflöturinn milli elíta og almennings sé sá sem mestu skiptir í nútímastjórnmálum.

En hvað er í raun vitað um elíturnar? Mynda þær samhentan kjarna sem stýrir samfélaginu á bakvið tjöldin eða samanstanda þær bara af fólki sem hefur náð góðum árangri á sínu sviði? Í þessari bók er þróun valdakerfanna á Íslandi rakin frá því á nítjándu öld og gögn birt um samsetningu og starfshætti elítuhópa á mismunandi sviðum samfélagsins. Aðferðafræðin tekur mið af norrænum elíturannsóknum en er löguð að íslenskum aðstæðum.

Niðurstöður höfundar benda til þess að íslenska valdakerfið hafi þróast frá ættarveldi á nítjándu öld til flokksræðis á þeirri tuttugustu en hins vegar megi á þeirri tuttugustu og fyrstu greina valdakerfi í mótun sem hafi aukin einkenni margræðis.

Höfundur bókarinnar er dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann er höfundur fjölda bóka, bókakafla og tímaritsgreina um stjórnmál og stjórnmálafræði. Meðal sérsviða hans eru stjórnmálaflokkar, opinber stefnumótun og tengsl stjórnmála og stjórnsýslu.

Blaðsíðufjöldi: 
182
Útgáfuár: 
2021
ISBN: 
978-9935-23-262-5
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U202114

Tími töframanna - Áratugur hinna miklu heimspekinga 1919–1929

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Wolfram Eilenberger
Verð: 
5900

Þýðandi: Arthúr Björgvin Bollason

Tími töframanna er grípandi lýsing á einum mesta umbrotatíma í evrópskri menningarsögu. Í bókinni, sem er magnaður spegill óróans og sköpunargleðinnar sem ríkti í Weimar-lýðveldinu á þriðja áratug síðustu aldar, rekur höfundur tilraunir fjögurra hugsuða til að átta sig á stöðu mannsins í heimi sem er á hverfanda hveli. Hildarleikur heimsstyrjaldarinnar fyrri er að baki og ný veröld vísindalegra framfara í burðarliðnum.

Í bókinni kynnumst við ekki aðeins hugsun „töframannanna“ fjögurra, Walters Benjamin, Ernsts Cassirer, Martins Heidegger og Ludwigs Wittgenstein, heldur fáum við jafnframt innsýn í það hvernig ástir og ástríður fléttast saman við heimspeki þeirra. Lesandinn er leiddur inn í töfraveröld hugsunar, þar sem gætir hugljómunar og ógnvekjandi drunga á víxl.

Tími töframanna er einstæð lýsing á því hvernig fjórir um margt mjög ólíkir hugsuðir freista þess að skýra af hvaða rótum menning okkar, tungumál og skilningur á heiminum eru sprottin, og hvernig við getum hagað tilvist okkar á óvissutímum sem eiga um margt skylt við það umrót sem ríkir við upphaf 21. aldar.

Bókin vakti mikla hrifningu þegar hún kom út og sat lengi ofarlega á metsölulistum í Þýskalandi, auk þess sem hún hefur verið þýdd á rúmlega 20 tungumál.

Um höfundinn:

Wolfram Eilenberger fæddist árið 1972 í borginni Freiburg í Svartaskógi. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá háskólanum í Zürich árið 2008. Bók hans Finnen von Sinnen kom út árið 2010. Í henni fjallar Eilenberger, sem er kvæntur finnskri konu, á kankvísan hátt um kynni sín af mannlífinu í Finnlandi. Bókin varð metsölubók bæði í Þýskalandi og Finnlandi. Eilenberger hefur sent frá sér nokkrar bækur um heimspeki og var um árabil ritstjóri heimspekitímaritsins Philosophie Maga­zin. Hann er að auki mikill knattspyrnuáhugamaður og hefur getið sér gott orð fyrir greinaskrif um íþróttir.

Um þýðandann:

Arthúr Björgvin Bollason lauk magistersprófi í heimspeki frá háskólanum í Hannover í Þýskalandi. Arthúr hefur þýtt fjölmörg skáld- og fræðirit úr þýsku, auk þess sem hann hefur sent frá sér frumsamdar bækur um margvísleg efni, bæði á íslensku og þýsku. Árið 1999 kom út eftir hann ljóðabókin Okkar á milli.

 

 

Blaðsíðufjöldi: 
384
Útgáfuár: 
2019
ISBN: 
978-9935-23-212-0
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201904

Saga Evrópusamrunans

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Alyson JK Bailes o.fl.
Verð: 
5900

Saga Evrópusamrunans: Evrópusambandið og þátttaka Íslands fjallar um Evrópusamrunann á aðgengilegan hátt fyrir almenna lesendur. Bókin er fyrsta kennslubókin um Evrópusamrunann á íslensku þar sem fjallað er um þá þróun í íslensku samhengi.

Í bókinni er saga Evrópusamrunans rakin frá síðari heimsstyrjöld til dagsins í dag og gerð grein fyrir ákvarðanatöku og málaflokkum Evrópusambandsins. Þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi í gegnum EFTA, EES og Schengen eru einnig gerð sérstök skil og fjallað um smáríki í Evrópu og stöðu þeirra í Evrópusambandinu.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknasetur um smáríki hafa undanfarin ár stuðlað að aukinni umræðu um Evrópumál og alþjóðamál almennt í íslensku samfélagi. Með útgáfu bókarinnar leitast stofnanirnar við að nýta þá þekkingu sem myndast hefur á þessu sviði og að miðla henni með faglegum hætti til áhugasamra. Höfundar bókarinnar eru allir sérfræðingar á sviði Evrópumála.

Kaflahöfundar eru: Alyson JK Bailes, Auðunn Arnórsson, Baldur Þórhallsson, Christian Rebhan, Hulda Herjolfsdóttir Skogland, Jóhanna Jónsdóttir og Maximilian Conrad.

 

Blaðsíðufjöldi: 
155
Útgáfuár: 
2015
ISBN: 
978-9935-23-104-8
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201532

Skólar og lýðræði

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Guðmundur Heiðar Frímannsson
Verð: 
5900

Lýðræði og skólar: Er eitthvert samband þar á milli? Í þessari bók er því haldið fram að svo sé og að skólar gegni sérstöku hlutverki í lýðræðislegu skipulagi.

Lýðræði byggist á því að borgararnir séu reiðubúnir að axla þá ábyrgð og sinna þeim skyldum sem því fylgja. Í lýðræði á vilji borgaranna, almannaviljinn, að ná fram að ganga og stjórna því sem gert er og stefnt er að. Til að svo geti orðið þurfa þeir að taka þátt í lýðræðinu með því að kjósa og eiga samræður við aðra borgara um stjórnmál. Þannig mótast almannaviljinn.

En til að borgararnir geti metið stefnur og skoðanir sem uppi eru þurfa þeir að afla sér þekkingar og kunnáttu – og þar gegna skólar lykilhlutverki. Almennt og opinbert skólakerfi er nauðsynlegt til að borgararnir geti unnið saman og rökrætt um ólík sjónarmið. Þannig geta þeir tekist á um þau af sanngirni og fundið lausnir

á knýjandi vandamálum samfélagsins.

Bókin er ætluð öllum sem áhuga hafa á hlutverki skóla í lýðræðislegri stjórnskipun og á lýðræði almennt.

Guðmundur Heiðar Frímannsson er prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri. Hann hefur skrifað um margvísleg efni á sviði heimspeki menntunar og siðfræði.

 
Blaðsíðufjöldi: 
298
Útgáfuár: 
2018
ISBN: 
978-9935-23-187-1
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201816

Hin mörgu andlit lýðræðis

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Gunnar Helgi Kristinsson
Verð: 
4900
Háskóli Íslands

Hvers konar lýðræði hentar sveitarfélögum? Eiga þau fyrst of fremst að vera smávaxnar eftirmyndir landsstjórnarinnar eða eiga róttækari hugmyndir um beint lýðræði þar betur við?
Á undanförnum árum hafa hugmyndir um íbúalýðræði átt vaxandi fylgi að fagna á Íslandi þar sem stjórnmálaflokkar og valdamiklir bæjarstjórar hafa löngum gegnt stóru hlutverki, og oft verið í miklu návígi við áhrifamikil fyrirtæki og verktaka ef marka má gagnrýnendur. Aukin tækifæri almennings til þáttöku í ákvörðunum gætu, samkvæmt því, skapað betra jafnvægi á milli sérhagsmuna og almannahags.
 Þessar hugmyndir eru teknar til skoðunar í bókinni Hin mörgu andlit lýðræðis. Valdakerfi sveitarfélaganna er athugað og kannað hvort hagsmunir almennings víki fyrir kröfum áhrifamikilla þrýstihópa. Róttækar þátttökukenningar eru jafnframt ígrundaðar með hliðsjón af því hvort stórbæta megi lýðræðið á sveitarstjórnarstiginu með víðfeðmri þáttöku almennings. Niðurstaða höfundar er sú að veikleikar í valdakerfi margra sveitarfeálaga kalli á breytingar en umbætur í anda íbúalýðræðis mæti ekki nema að takmörkuðu leyti þeirri þörf sem er á umbótum í stjórnmálum, stefnumótun og stjórnsýslu sveitarfélaga.

Blaðsíðufjöldi: 
204
Útgáfuár: 
2015
ISBN: 
978-9935-23-065-2
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201431

Lýðræðistilraunir

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Jón Ólafsson
Verð: 
3900
Háskóli Íslands

Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 urðu komu fram kröfur um nýjar leiðir í pólitík og aukna hlutdeild almennings í stefnumótun . Grasrótarstarf lifnaði við og í margra augum var lýðræðisleg endurreisn nauðsynlegur hluti af því að Íslendingar gætu unnið sig út úr hruninu. Haldnir voru þjóðfundir, kosið var stjórnlagaþing og Reykjavíkurborg gerði tilraunir með þátttökufjárlög svo eitthvað sé nefnt.
 
Tilraunir með beint lýðræði á Íslandi vöktu athygli víða um heim, einkum vinna stjórnlagaráðs. Í þessari bók fjalla íslenskir og erlendir fræðimenn á gagnrýninn hátt um afraksturinn og þá  reynslu sem hlaust af þessum nýjungum. Allir kaflahöfundar leggja áherslu á þá lærdóma sem draga megi af reynslu Íslendinga og merkingu hennar fyrir lýðræðisumræður í samtímanum.
 
James Fishkin, prófessor við Stanford University, ræðir um stjórnlagaráð og þjóðfundina 2009 og 2010. Hélène Landemore, lektor við Yale University,  fjallar um kosti og galla almenningssamráðsins við ritun stjórnarskrárfrumvarpsins. Tom Ginsburg, prófessor í alþjóðalögum við Chicago University, og Zachary Elkins, dósent við University of Texas, bera frumvarpið saman við stjórnarskrár annarra landa.  Paolo Spada, fræðimaður við University of British Columbia, og Giovanni Allagretti, fræðimaður við Coimbra University,  beina sjónum að  þátttökufjárlögum og tilraunum Reykjavíkurborgar á því sviði. Kristinn Már Ársælsson doktorsnemi við University of Wisconsin  leggur mat á reynsluna af helstu lýðræðisnýjungum.  Í inngangi bókarinnar gefur Jón Ólafsson stutt yfirlit yfir helstu lýðræðisnýjungar á Íslandi á árunum 2009–2013.
 
Lýðræðistilraunir er  upplýsandi bók fyrir áhugafólk um íslensk stjórnmál, bæði fyrir virka þátttakendur í stjórnmálum og hina sem veita kjörnum fulltrúum aðhald með umræðum, gagnrýni og atkvæði sínu.

Rannsóknasetrið EDDA hefur, í samvinnu við Háskólaútgáfuna og með stuðningi Háskólans á Bifröst, gefur bókina út.

Umsögn hér.

Blaðsíðufjöldi: 
132
Útgáfuár: 
2014
ISBN: 
978-9935-23-039-3
Útgáfuform: 
Tungumál: 
Verknúmer: 
U201432

Upphaf Evrópusamvinnu Íslands

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Einar Benediktsson, Ketill Sigurjónsson og Sturla Pálsson
Verð: 
ISK 2850 - USD - Harðspjaldabók
Háskóli Íslands

 Upphaf Evrópusamvinnu Íslands fjallar um haftatímann frá 1945-60. Fyrsti
hlutinn byggir að verulegu leyti á reynslu Einars Benediktssonar
sendiherra af störfum hans sem fulltrúa hjá OEEC í París árin 1956-60.
Einar rekur framvindu samvinnunar sem leiddi til afnáms þeirra
viðskiptagirðinga er einangruðu öll ríki Evrópu eftir heimsstyrjöldina
síðari.

Í skrifum Einars má glöggt sjá, að upphaf Evrópusamstarfsins á
áðurnefndu tímabili er mun tengdara síðari tímum en margur myndi ætla.
Íslendingar voru eftirbátar annarra þjóða við afnám hafta og báru m.a.
fyrir sig fiskveiðideiluna við Breta og löndunarbannið sem fylgdi í
kjölfar hennar. Í öðrum hluta bókarinnar,"Skjölin í Flórens", rekur
Ketill Sigurjónsson lögfræðingur, mikilvægi OEEC við lausn
fiskveiðideilna Breta og Íslendinga. Ketill dregur fram í dagsljósið
ýmis skjöl sem ekki hafa áður komið fyrir sjónir almennings. Í þriðja og
síðasta hluta bókarinnar fjallar Sturla Pálsson hagfræðingur um eðli
viðskiptahafta og afleiðingar þeirra. Sturla notar kenningar
almannavalsfræðinnar til að skýra hvers vegna þröngir hagsmunahópar geta
komið á og viðhaldið viðskiptahindrunum á kostnað fjölmennra og
sundurleitra hópa. Ennfremur hvernig þessar kenningar kom heim og saman
við þann veruleika skömmtunar og hafta sem almenningur á Íslandi bjó við
fram til 1960.

Blaðsíðufjöldi: 
158
Útgáfuár: 
1994
ISBN: 
9979-54-088-5
Tungumál: 
Verknúmer: 
U199461

Svartbók kommúnismans

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Þýð. Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Verð: 
ISK 5900 - Kilja

Kommúnisminn var einn afdrifaríkasti þátturinn í sögu tuttugustu aldar. Eftir fall hans í Mið- og Austur-Evrópu varð aðgangur að upplýsingum greiðari, ekki síst í skjalasöfnum, sem áður voru lokuð. Það hafa höfundar þessarar bókar nýtt sér, og áætla þeir, að kommúnisminn hafi kostað hátt í 100 milljónir manna lífið (líklega 20-25 milljónir í Ráðstjórnarríkjunum og ef til vill um 65 milljónir í Kína). Honum hafi hvarvetna fylgt fjöldamorð, hungursneyðir, nauðungarflutningar stétta og þjóðflokka, sýndarréttarhöld, aftökur og þrælkunarvinna.

Svartbók kommúnismans hefur komið út á öllum heimstungum, víða verið á metsölulistum og leitt til fjörugra umræðna. Hún var kveikjan að ályktun Evrópuráðsins í janúar 2006, þar sem afbrot kommúnistastjórna um allan heim voru fordæmd.

Blaðsíðufjöldi: 
828
Útgáfuár: 
2009
ISBN: 
978 9979 548 39 3
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200939

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is