Háskóli Íslands

Leiðbeiningar um frágang handrita

Til höfunda

Eftirfarandi leiðbeiningum er ætlað að veita ráð um frágang handrita sem eru send Háskólaútgáfunni til útgáfu. Þær eru sniðnar eftir viðurkenndum og algengum alþjóðlegum og innlendum leiðbeiningum af svipuðu tagi. Þótt hér sé tekið á flestum almennum og sértækum atriðum sem koma upp við frágang handrita getur þó verið gagnlegt fyrir höfunda að geta leitað í þau rit sem hér hafa helst verið höfð til hliðsjónar eða önnur aðgengileg rit sem taka á svipaðan hátt á efninu:

 • The Chicago Manual of Style. 14. útgáfa, endurskoðuð. Chicago: University of Chicago Press, 1993.
 • Gísli Skúlason. Hagnýt skrif. Reykjavík: Mál og menning, 1999.
 • Ingibjörg Axelsdóttir og Þórunn Blöndal. Handbók um ritun og frágang. 6. útgáfa. Reykjavík: Iðunn, 2000.
 • Halldór Ármann Sigurðsson, ritstj. Leiðbeiningar um frágang greina. Íslenskt mál 12–13 (1990–1991): 213–232.

The Chicago Manual er alþjóðlega viðurkennd handbók og fáanleg í flestum stærri bókaverslunum, auk þess sem hún liggur frammi á Þjóðarbókhlöðunni og hjá Háskólaútgáfunni. Íslensku handbækurnar eftir þau Gísla, Ingibjörgu og Þórunni innihalda samsvarandi leiðbeiningar um frágang á íslensku og sama er að segja um leiðbeiningar Íslensks máls. Auk þessa er miðað við eftirfarandi auglýsingar menntamálaráðuneytisins um stafsetningu og greinarmerki:

 • Auglýsing um setningu íslenskra ritreglna. [Auglýsing nr. 695/2016.]
 • Auglýsing um greinarmerkjasetningu. [Auglýsing nr. 133/1974, ásamt breytingum skv. auglýsingu nr. 184/1974.] Um frágang prófarkaleiðréttinga má einnig hafa hliðsjón af staðli Iðnþróunarstofnunar:
 • Íslenskur staðall um handrit og prófarkir. ÍST 3. Reykjavík, Iðnþróunarstofnun Íslands, 1975.

Ætlast er til þess að höfundar fari eftir þessum leiðbeiningum eftir því sem kostur er, enda auðveldar það alla umbrots- og leiðréttingarvinnu, auk þess sem það tryggir heildarsvip á bókum útgáfunnar. Í þeim tilvikum þar sem aðrar venjur tíðkast í viðkomandi fræðigrein er höfundum þó heimilt að miða við aðrar reglur um frágang, enda láti þeir eintak af reglunum fylgja með handriti til þess að umbrotsmenn og ritstjórar geti leitað í þær um vafaatriði. Þótt leiðbeiningarnar séu allítarlegar verður aldrei við öllu séð. Ýmis ófyrirséð álitamál koma oft upp og verður að ráða fram úr þeim jafnharðan.

Ritvinnsla

Æskilegast er að textum sé skilað í ritvinnsluforritinu Word. Ef það er ekki gert, ber að tilkynna það sérstaklega til útgáfunnar. Óskað er eftir því að gengið sé frá textanum eins og hér er lýst þar sem það auðveldar alla vinnslu:

 • Hafa skal rúma spássíu (25 mm á kant).
 • Vinstri spássía skal vera jöfnuð en sú hægri ekki.
 • Orðum skal ekki skipt á milli lína.
 • Notið forstillingar á reglustiku í Word til þess að draga inn upphaf nýrra málsgreina og stilla inndrátt. Fyrsta málsgrein í kafla á ekki að vera ekki inndregin. 
 • Notið aðeins eitt stafabil á eftir punkti.
 • Notið vinstri og hægri gæsalappir að íslenskum hætti ef tölvan býður upp á þann valkost. þ.e. svona: „ og “.
 • Hafið stafabil sitt hvorum megin við þankastrik – .
 • Notið ekki undirstrikun til áhersluauka heldur fremur skáletur eða þá feitletur ef skáletur er notað á kerfisbundinn hátt í öðrum tilgangi (t.d. til að auðkenna dæmi í málfræðigreinum).
 • Notið stafsetningarforrit við innslátt ef kostur er eða látið slík leiðréttingarforrit yfirfara handritið áður en því er skilað til útgáfu.
 • Látið forritið telja orðin í textanum (skoðið Word Count undir flipanum Tools í Word) til þess að geta gefið útgefanda upp lengd textans. Miðað skal við flokkinn Number of characters with spaces. Notið sem minnst af sjálfvirkum tólum við ritvinnsluna, t.d. ekki Automatic running titles eða Automatic hyphenation and justification. Þessi tól valda aðeins aukinni fyrirhöfn í umbroti handritsins.

Pappírsstærð, línubil o.fl. Handritum skal að jafnaði skilað í stærðinni A4. Aðeins skal prentað öðrum megin á hverja síðu. Hafa þarf gott línubil í öllu handritinu (1,5 eða 2) og slá eitt stafabil á eftir kommum og punktum. Spássíur þurfa að vera nægilega stórar til að unnt sé að skrifa á þær minni háttar athugasemdir (25 mm, sbr. áður). Best er að tölusetja blaðsíður handrits í hægra horni að ofan.

Stafsetning og greinarmerkjasetning

Æskilegt er að höfundar fari að opinberum reglum um stafsetningu og greinarmerkjasetningu. Það er ritstjórum til mikils hagræðis (sbr. þau leiðbeiningarrit sem nefnd voru hér framar (bls. 15)).

Framsetning efnis og kaflaskiptingar

Handrit þurfa að standast eðlilegar gæðakröfur, m.a. að því er varðar framsetningu. Áhersla er lögð á að höfundar reyni að skrifa þannig að handrit sé eins skýrt og aðgengilegt og kostur er án þess þó að það leiði til óheppilegrar einföldunar á fræðilegum atriðum. Eitt af því sem best stuðlar að læsileika bókar er skýr kaflaskipting og upplýsandi heiti á aðalköflum og undirköflum. Ekki er nauðsynlegt að númera kafla og undirkafla en það hefur þó þann kost að númerin auðvelda allar tilvísanir úr einum kafla í annan. Oft er til hagræðis fyrir lesendur ef helstu kaflar byrja á inngangi og enda á því að dregin eru saman meginatriði þess sem fjallað hefur verið um. Í slíkum lokaorðum má oft tengja kaflann við það sem á eftir fer. Að jafnaði ber að forðast að skipta inngangsköflum. Hvatt er til þess að gerður sé skýr greinarmunur á meginköflum, undirköflum og smærri skýringargreinum með aðgreinanlegum leturgerðum, leturstærðum eða stílgerðum leturs í kaflafyrirsögnum. Þetta má t.d. gera í handriti með því að hafa feitt letur í fyrirsögnum aðalkafla og skáletur í fyrirsögnum beinna undirkafla aðalkafla. Skipulegur frágangur á þessu auðveldar umbrotsmanni verkið, en hann getur einnig valið að nota breytilegar leturstærðir. Tvö auð línubil skulu vera á eftir hverjum kafla hvort sem um er að ræða aðalkafla eða undirkafla. Autt línubil skal vera á eftir kaflafyrirsögnum, en undirkafla ekki. Þetta er hvort tveggja sýnt hér:

Inngangur

Þessi bók fjallar um seinfærar/þroskaheftar mæður og börn þeirra. Rætur hennar má rekja aftur til ársins 1994 þegar við unnum saman að okkar fyrsta samstarfsverkefni um þroskaheftar konur. Vinnan við þá rannsókn vakti athygli okkar á því misrétti sem margar þroskaheftar konur eru beittar þegar kemur að barneignum og fjölskyldulífi. Árið 1996 fórum við af stað með stórt…

Markmið rannsóknarinnar

Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á lífi og aðstæðum þroskaheftra/ seinfærra mæðra hér á landi og afla fyrstu skipulegu upplýsinganna um hvernig þeim og fjölskyldum þeirra vegnar í íslensku samfélagi. Erlendar rannsóknir sýna að þroskaheftar mæður búa við mikla fordóma víðast hvar og eru af mörgum taldar ófærar um að eiga og ala upp börn. Þessar rannsóknir sýna að 40–60% barna þeirra…

Neðanmálsgreinar og aftanmálsgreinar

Ýmiss konar innskot, óútskýrð vandamál og fleira sem gjarnan rýfur eða truflar frásögn meginmáls er gott að setja í neðanmálsgreinar og auðkenna þær með skýringartáknum, t.d. *. Ekki er gert ráð fyrir því að hafa hreinar tilvísanir í heimildir í slíkum greinum heldur fella þær inn í meginmálið innan sviga og vísa þannig í heimildaskrá eða ritaskrá (sjá nánar hér á eftir). Ekki fer vel að hafa margar neðanmálsgreinar á hverri síðu. Þegar þörf er á mörgum athugasemdagreinum er oft betra að hafa þær aftanmáls. Rétt er að hafa samráð við ritstjóra og umbrotsmann um vafaatriði varðandi þetta. Allar slíkar skulu tölusettar með samfelldri töluröð frá upphafi kafla til enda. Þær skulu hafðar allra síðast í handriti eða tölvuskjali. Í meginmáli skal vísa til slíkra greina með viðeigandi tölustöfum ofan við línu (þ.e. superscript) og þá hægra megin við greinarmerki ef því er að skipta eins og hér er sýnt: Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum úr þessari könnun.3 3 Áður hefur verið greint frá bráðabirgðaniðurstöðum í grein í Tímariti verkfræðinga (sjá Jón Jónsson, 1998).

Aldrei skal hafa punkt á eftir númeri athugasemdagreinar, hvorki í meginmáli né í greininni sjálfri. Í greininni skal slá TAB á eftir tölunni. Athugasemdin sem vísað er til hér ofar gæti þá litið út á þessa leið: 1 Andrews, Avery, „Case Agreement of Predicate Modifiers in Ancient Greek“. Linguistic Inquiry 2 (1971):127–151. Á eftir tölustaf skal slá „TAB“ Hér er vísað til viðkomandi greinar með nafni höfundar og útgáfuári greinarinnar, samkvæmt þeirri aðferð sem lýst er hér síðar og í þeim handbókum og leiðbeiningum sem nefndar eru í upphafi. Höfundinn og greinina má síðan finna í stafrófsraðaðri heimildaskrá í bókarlok. Athugið að ekki er að jafnaði gert ráð fyrir því að heimildatilvísanir séu í neðanmáls- eða aftanmálsgreinum heldur inni í textanum (sjá nánar síðar).

Tilvitnanir inni í meginmáli

Stærri textatilvitnanir í meginmáli eru auðkenndar með inndrætti. Í lokafrágangi getur farið vel á að hafa þær einnig með smærra letri. Dæmi: Um þetta segir svo í dóminum: Á var vikið úr starfi forstjóra L af umhverfisráðherra, fyrst um stundarsakir, en síðar að fullu eftir að rannsóknarnefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna hafði fjallað um mál hans. Til grundvallar frávikningunni um stundarsakir lá skýrsla ríkisendurskoðunar, þar sem taldar voru upp tólf ávirðingar vegna starfa Á, en í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar var talið að fjórar þessara ávirðinga, sem allar vörðuðu fjárhagsleg samskipti Á við L, ættu við rök að styðjast og réttlættu lausn um stundarsakir (Hæstaréttardómar 2010, bls. 28). Hér kemur tilvísun í rit í heimildaskrá í lok tilvitnunarinnar. Hafa skal eitt línubil á undan og annað á eftir slíkum tilvitnunum eins og hér er sýnt. Sé tilvitnunin þrjár línur eða styttri skal henni haldið í megintexta og hún auðkennd með venjulegum tilvitnunarmerkjum, þ.e. „ og “ , auk tilvísunar í viðkomandi rit.

Myndir, listar og töflur

Ávallt skal tilgreina innan hornklofa í tölvuskjali hvar fyrirhugað er að töflur, gröf og myndir verði staðsettar. Þetta má gera eins og hér er sýnt: Því má ekki heldur gleyma að lesandinn eða viðtakandinn er einnig virkur þátttakandi í boðskiptaferlinu. Textinn fær þá fyrst merkingu þegar hann er skilinn og túlkaður. Þetta má sýna með eftirfarandi líkani: [Mynd 1.] Boðskiptaferlinu líkur þegar viðtakandinn hefur numið og túlkað textann ... Ef um er að ræða litla mynd er yfirleitt hægt að segja nákvæmlega til um það hvar hún á að koma í textanum líkt og gert er hér. Sé myndin stærri er betra að nota þá aðferð sem hér er sýnd: Því má ekki heldur gleyma að lesandinn eða viðtakandinn er einnig virkur þátttakandi í boðskiptaferlinu. Textinn fær þá fyrst merkingu þegar hann er skilinn og túlkaður. Þetta má sýna eins og gert er með líkaninu á Mynd 1. Boðskiptaferlinu lýkur þegar [Mynd 1 komi sem næst hér] viðtakandinn hefur numið og túlkað textann ... Hér er það látið í vald umbrotsmannsins að velja myndinni endanlegan stað.

Textaskjal sem skilað er til útgáfu skal ekki innihalda töflurnar, gröfin og myndirnar sjálfar, heldur ber að skila þeim sem sérstökum skjölum og merkja þau nákvæmlega samkvæmt tilvísunum í handriti. Útprentað handrit sem fylgir tölvuskjölum skal þó innihalda viðkomandi töflur, gröf og myndir á þeim stöðum sem þær eiga að birtast, ef þess er kostur, til glöggvunar fyrir umbrotsmann. Allar myndir þurfa að vera þannig úr garði gerðar að gera megi tölvutæk myndaskjöl eftir þeim eða filmu án frekari lagfæringa. Töflum og gröfum má t.d. skila á Excel-formi. Mælst er til þess að myndum, töflum og gröfum sé skilað á forminu TIFF eða EPS. Ekki nægir að skila gögnum á forminu JPEG (JPG) vegna ónógrar upplausnar. Þegar skýringartexti fylgir töflum, gröfum og myndum skal hann hafður undir tilvísuninni til þeirra í handriti og greindur frá tilvísuninni með auðu línubili. Autt línubil er einnig haft á undan töflum og á eftir skýringartexta þeirra. Dæmi: [Mynd 1.] Mynd 1. Frá komu þingfulltrúa til Neskaupstaðar 1933. (Ljósmynd N.N.) Töflur sem ekki eru unnar sérstaklega í þar til gerðum forritum heldur slegnar beint inn með texta í meginmáli þarf að dálksetja, þ.e.a.s. ekki skal hafa nein auð stafabil í töflum. Notið ekki stafabil til að þröngva orðum eða tölum á „réttan stað“. Töflurnar skulu ekki hafðar flóknari eða stærri en svo að auðvelt sé að koma þeim fyrir á prentaðri síðu. Best er að hafa sem minnst af línum eða strikum í töflunum. Það einfaldar umbrot.

Brýnt er að aðeins sé slegið eitt TAB-bil á milli dálka. Svipuðu máli gegnir um ýmiss konar lista sem eru felldir inn í meginmál. Forðist að búa til lista með punktum (bullets). Notið þess í stað stjörnu, „*“, með TAB á eftir. Athugið að geyma allar myndir, gröf, stórar töflur og þess háttar efni í sérstökum merktum tölvuskjölum og vísa nákvæmlega til þeirra á viðeigandi stað í handriti eins og áður er lýst.

Litanotkun

Forðist að nota liti nema þess sé sérstaklega óskað og að höfðu samráði við útgáfuna. Í flestum tilfellum má bjóða upp á grafískan frágang sem dregur fram sambærileg sérkenni. Litaprentun er að jafnaði margfalt dýrari í framleiðslu.

Skönnun mynda

Útgáfan getur annast skönnun allra mynda sem nota á. Ef höfundur sér sjálfur um skönnun mynda eða útvegar hana þarf hún að uppfylla ákveðin skilyrði:

 • Upplausn þarf að vera a.m.k. 300 punktar/tommu fyrir litmyndir og 200 punktar/tommu fyrir svarthvítar myndir.
 • Vistið skannanir á forminu TIFF eða EPS.
 • Útgáfan þarf að staðfesta að gæði séu nægjanleg áður en umbrot hefst. Ef höfundur skilar myndum í tölvutæku formi þarf einnig að gæta þess að viðkomandi mynd sé nægjanlega stór fyrir það birtingarform sem henni er ætlað. Leturflötur heillar síðu er að jafnaði 120 x 185 mm og er góð regla að miða við að tölvuunnar myndir séu í þeirri stærð þegar þeim er skilað. Myndir fyrir kápu þurfa að vera enn stærri.

Leturbreytingar 

Leturbreytingar eru ýmist notaðar til áhersluauka eða til að auðkenna orð eða texta af ákveðinni gerð. Mikilvægt er að gæta samræmis í notkun leturbreytinga og til að tryggja það er einfaldast að fara eftir tilteknum reglum. Hér er lýst algengri notkun helstu leturbreytinga og því beint til höfunda að þeir leitist við að fara eftir þessum venjum:

Skáletur er t.d. notað:

 1. Til að auðkenna heiti tímarita og bóka, bæði í heimildaskrá og meginmáli. Dæmi: Nýlega birtist ritdómur um bókina Íslensk stílfræði í tímaritinu Skírni. Sé hins vegar um að ræða heiti á bókmenntaverki eða handriti skal ekki breyta letri: Völuspá, Möðruvallabók, AM 468 4to.
 2. Í töflu- og myndaheitum, bæði í meginmáli og í skýringartextum: Tafla 7, mynd 3, línurit 2.
 3. Til að auðkenna breytur og önnur álíka sértákn: Breytan x getur haft þrjú gildi: 0, 1 og 2. 
 4. Til að auðkenna orð sem eru tekin sem dæmi inni í meginmáli: Orðið hundaklyfberi hefur verið notað sem niðrandi orð um menn.
 5. Til að auðkenna erlend orð eða heiti, t.d. þegar þau eru gefin til skýringar á fræðiheitum: Hér má t.d. nefna brennisóley (lat. ranunculus acris) sem allir hljóta að kannast við.
 6. Í fyrirsögnum beinna undirkafla aðalkafla.

Feitletur er t.d. notað:

 1. Til glöggvunar, svo sem til að auðkenna fræðiheiti eða fræðihugtak þegar það er nefnt í fyrsta sinn í texta (sjá einnig dæmi 5 hér á undan). Þetta eru kölluð lögbönd og eigandi getur ekki selt eign sem lögbönd eru á nema þau séu fyrst leyst.
 2. Til áherslu (þessari notkun feits leturs skal þó stillt í hóf).
 3. Í fyrirsögnum aðalkafla í handriti. Sé þörf á því að nota fleiri leturbreytingar má grípa til hásteflinga (e. small caps) en forðast skal að nota undirstrikun inni í meginmáli.

Tilvitnunarmerki og sérstök tákn

Oft getur leikið vafi á því hvenig fara skuli með tilvitnunarmerki og sértákn ýmiss konar. Hér má vísa til handbókanna sem nefndar eru í upphafi þessa bæklings og til auglýsingar menntamálaráðuneytisins um setningu íslenskra ritreglna. Hér er einnig þess að gæta að á ýmsum fræðasviðum gilda sérstakar venjur um notkun sértákna sem ástæðulaust er að reyna að lýsa hér. Þar verður hver og einn að leita viðeigandi leiðbeininga á sínu sviði. Hér eru hins vegar dregin saman nokkur almenn atriði:

Tvöföld tilvitnunarmerki (gæsalappir) eru notuð til að:

 1. Afmarka orðréttar tilvitnanir sem eru styttri en u.þ.b. þrjár línur eins og áður sagði: Á bls. 8 segir m.a. að bókin sé „ætluð námsfólki og fróðleiksfúsum almenningi“. Athugið að í dæmum af þessu tagi fer vel á því að hafa punkt á eftir síðari gæsalöppunum, jafnvel þótt tilvitnuðu orðunum ljúki með punkti í heimildinni.
 2. Til að auðkenna orð eða orðasambönd sem notuð eru í óvenjulegri merkingu, en slíkri notkun skal þó stillt í hóf. Einfaldar gæsalappir eru mjög oft notaðar til að auðkenna þýðingar einstakra orða, orðasambanda eða setninga inni í meginmáli til að greina slíkt efni frá beinum tilvitnunum: Hér merkir orðasambandið apple of her father’s eye ‚augasteinn föður síns‘. Sértákn og bókstafi af ýmsu tagi er oft öruggast að tákna með „gervitáknum“ í tölvuskjali, jafnvel þótt rétt tákn séu notuð í útprenti. Ekki er alltaf hægt að treysta því að slík tákn skili sér óbrjáluð í umbrotstölvuna. Þannig má t.d. nota tákn eins og $1, $2, $3 o.s.frv. í tölvuskjalinu og láta síðan fylgja skrá yfir merkingu þeirra: $1 = / (tákn fyrir kvenkyn, konur) $2 = ? (tákn fyrir karlkyn, karla) Umbrotsmaður getur þá breytt þessum gervitáknum í viðeigandi tákn á svipstundu. Meginreglan er þó sú, að samráð sé haft um þetta atriði við væntanlegan umbrotsmann útgáfunnar.

Heimildir og tilvísanir

Skrá um þær heimildir sem vitnað er til þarf að fylgja öllum handritum. Þar er heimildum raðað í stafrófsröð eftir nöfnum höfunda ellegar skammstöfuðum eða styttum heitum rita ef ekki er unnt að kenna þau við tiltekinn höfund. Séu höfundar fleiri en einn eru þeir tilfærðir í þeirri röð sem höfð er í heimildinni sjálfri. Í heimildum sem skrifaðar eru á íslensku skal nota íslenska stafrófsröð (a á undan á o.s.frv.) og miða röðun við skírnarnafn íslenskra höfunda en raða erlendum höfundum eftir seinna nafni (ættarnafni).

Eins og kunnugt er hafa tíðkast býsna mismunandi venjur og hefðir við frágang ritaskrár og tilvísana, bæði hérlendis og erlendis. Flestar handbækur um ritun og frágang sem komið hafa út síðustu 20–25 ár á Íslandi miða þó einkum við eina aðferð. Hér verður þeirri aðferð lýst, enda er hún í aðalatriðum í samræmi við þann staðal sem lýst er í The Chicago Manual of Style (sjá skrá yfir handbækur og leiðbeiningarit í upphafi þessa bæklings). Hér er mælst til þess að höfundar noti þessa aðferð. Telji þeir nauðsynlegt, t.d. vegna ríkjandi hefðar á sínu sviði, að nota aðra aðferð geta þeir óskað eftir því við Háskólaútgáfuna. Útgáfan getur þó ekki orðið við slíkum óskum nema beiðninni fylgi nákvæm lýsing á aðferðinni, t.d. í handbók eða leiðbeiningabæklingi sem umbrotsmaður og ritstjórn getur þá haft til hliðsjónar.

Vitnað í bækur eftir nafngreinda höfunda

Einn höfundur

Heimildaskrá:

 • Ármann Jakobsson. Staður í nýjum heimi. Konungasagan Morkinskinna. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2002.
 • Blinksworth, Roger. Converging on the Evanescent. Threshold Publications, San Francisco, 1987.

Hugsanleg dæmi um tilvísanir inni í texta í efni á tilteknum blaðsíðum í ofangreindum ritum: Snorri gat líka brugðið fyrir sig ólíkum aðferðum í þessu (sjá t.d. Ármann Jakobsson, Staður í nýjum heimi, 85) en þetta fellur greinilega saman (Blinksworth, Converging on the Evanescent, 23)

Fleiri höfundar

Heimildaskrá:

 • Holmes, Philip, og Ian Hinchliffe. Swedish. A Comprehensive Grammar. Routledge, London, 1994.
 • Smith, John, George Jackson, Humphrey Little og Stanley Black. How to Fry an Egg. Boston: Serendipity Press, 1972.
 • Þorleifur Hauksson og Þórir Óskarsson. Íslensk stílfræði. Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur, Háskóla Íslands. Reykjavík: Mál og menning, 1994.

Tilvísanir inni í texta: (Holmes og Hinchliffe, Swedish, 28) (Þorleifur Hauksson og Þórir Óskarsson, Íslensk stílfræði, 8) (Smith o.fl., How to Fry an Egg, 35)

Eins og hér er sýnt í síðasta dæminu eru tilvísanir til höfunda oft styttar inni í texta ef höfundar eru þrír eða fleiri. Eins má stytta tilvísanir til íslenskra höfunda með því að nota bara skírnarnafn þeirra þegar búið er að vísa til þeirra skömmu áður, t.d. svona: (Þorleifur og Þórir 1994, 9).

Athugið að í bókum á íslensku er eðlilegt að nota íslenska tengiorðið og (fremur en and til dæmis) á milli nafna höfunda þótt vísað sé til erlends rits. Einnig er eðlilegt að nota íslensku skammstöfunina ritstj. (fremur en ed. eða eds. til dæmis) þegar því er að skipta, t.d. svo: Collins, Geoffrey, og Matthew D. Wortmaster, ritstj. 1953. The Collected Works of G. Farthington Pennyloss. C.F. Pennyloss, Boston. Til slíks rits væri þá vísað svo í texta ef til kæmi: (Collins og Wortmaster, The Collected Works of G. Farthington Pennyloss, 12)

Þegar um ritstýrt safn greina eftir nafngreinda höfunda er að ræða er þó venjulega vísað til einstakra greina undir nafni höfunda þeirra en ekki ritstjóranna.

Vitnað í skáldverk, bækur eftir ónafngreinda höfunda eða í stofnanir

Þegar vitnað er í fræðirit er vel við hæfi að gera það á þann hátt sem lýst er hér á undan, þ.e. vísa í nafn höfundar og útgáfuár. Þegar vísað er til skáldverka fer þó oft betur á því að nota heiti bókarinnar í tilvísun. Í slíkum tilvikum þarf þá að vera hægt að fletta bókarheitinu beint upp í ritaskránni:

Í heimildaskrá: Halldór Kiljan Laxness. Sjálfstætt fólk. Hetjusaga. Önnur útgáfa. Reykjavík: Helgafell, 1952. Sjálfstætt fólk: Sjá Halldór Kiljan Laxness. Sjálfstætt fólk.

Í texta: (Sjálfstætt fólk 1952, 101)

Þegar um er að ræða verk eftir ónafngreinda höfunda verður auðvitað að vísa í heiti verksins. Þá getur verið þægilegt að stytta heitið í tilvísunum en þá þarf að gera grein fyrir því í heimildaskrá: Í heimildaskrá: Laxdæla = Laxdæla saga. Halldórs þættir Snorrasonar. Stúfs þáttr. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1934. Í texta: (Laxdæla, 135)

Athugið að sé útgáfuár ekki notað í tilvísunum kemur það síðast í flettunni í heimildaskránni.

Stundum er stofnun eða fyrirtæki tilgreint sem heimild í texta vegna þess að verið er að vísa í skýrslu frá stofnuninni og höfundar er ekki getið: (Þjóðhagsstofnun 1975, 103) Þá þarf að vera hægt að fletta beint upp á stofnuninni í heimildaskrá: Þjóðhagsstofnun. 1975. Skýrsla um ástand og horfur í refarækt. Reykjavík.

Vitnað í tímaritsgreinar og bókarkafla eftir nafngreinda höfunda

 • Banks, William. Secret Meeting in Boise. Midwestern Political Review 6 (1958): 26–31.
 • Kristján Árnason. Um merkingu viðtengingarháttar í íslensku. Afmæliskveðja til Halldórs Halldórssonar 13. júlí 1981 (bls. 154–172). Reykjavík: Íslenska málfræðifélagið, 1981.
 • Kristján Árnason. Ritdómur um bókina On Complementation in Icelandic eftir Höskuld Þráinsson. Íslenskt mál 3 (1981): 176–195.
 • Torfi H. Tulinius. 1994. Le regard de l’autre porté sur soi dans une saga du XIIe siècle: Identité marginale et désir d’assimilation dans l’Islande médiévale. Laurent Mayali ritstj.: Identité et Droit de l’Autre (bls. 147–172). Berkeley: University of California Press.

Tilvísanir inni í texta: (Banks, Secret Meeting in Boise, 28) (Kristján Árnason, Um merkingu viðtengingarháttar í íslensku, 162) (Torfi H. Tulinius, Le regard de l’autre, 156) 

Stundum eru greinar nafnlausar, t.d. ritstjórnargreinar sumra dagblaða, og þá er auðvitað ekki hægt að vísa til þeirra með nafni höfundar: Í heimildaskrá: New York Times. Ritstjórnargrein 30. júlí 1990. Inni í texta: Í ritstjórnargrein New York Times (30. júlí 1990) er því haldið fram að ...

Heimildir af netinu

Segja má að aðferðir við að vitna í efni á netinu séu enn í mótun en góð almenn regla er að gefa upp vefslóðina þar sem þess er kostur:

Heimildaskrá: Jewett, Sarah Orne. The Country of the Pointed Firs. Aðgengilegt á netinu. Sótt af http:// www.columbia.edu/acis/.bartleby/jewett 

Tilvísun inni í texta: (Jewett, The Country of the Pointed Firs)

Ábyrgð

Höfundar bera alla ábyrgð á því að rétt sé með farið í tilvitnunum og heimildaskrá, fulls innra samræmis við viðkomandi hefð gætt og að höfðu samráði við útgáfuna. Höfundum er bent á að nota forritið EndNote sem starfsmenn HÍ geta sótt á slóðina: https://ugla.hi.is/vk/thjonusta/form_endnote_umsokn.php?sid=1025

Útdráttur

Handritum skal fylgja útdráttur (e. summary) á ensku. Í honum skal aðeins stiklað á stærstu efnisatriðum og helstu niðurstöðum og skal hann að jafnaði ekki vera lengri en ein síða í handriti eða tölvuskjali.

Athugasemdir Háskólaútgáfunnar

Útgáfan áskilur sér rétt til þess að gera athugasemdir við allt efni samkvæmt ofangreindum viðmiðum. Ekki eru aðeins gerðar athugasemdir við fræðilega röksemdafærslu heldur einnig við framsetningu, orðalag, frágang o.s.frv. Þar getur m.a. komið fram hvort handrit telst birtingarhæft með litlum breytingum, hæft til birtingar eftir gagngerar breytingar eða óhæft til birtingar. Athugasemdir eru að sjálfsögðu misjafnar engu síður en handritin, en þær eru jafnan gerðar með hagsmuni höfunda og útgáfunnar fyrir augum. Höfundar eru því hvattir til að reyna að nýta sér þær sem best þótt þeir kunni að vera ósammála þeim í einhverjum atriðum.

Prófarkir

Prófarkir eru sendar höfundum til yfirlestrar, þ.e síðupróförk eftir umbrot. Þær skulu lesnar og leiðréttar og sendar um hæl til ritstjóra. Handrit er ekki sent með próförk svo að nauðsynlegt er að höfundar haldi eftir afriti í upphafi. Á próförk skal aðeins gera nauðsynlegar leiðréttingar og höfundar mega búast við að verða látnir greiða þann kostnað sem hlýst af annars konar breytingum (frávikum frá samþykktri lokagerð). Um aðferðir við leiðréttingu prófarka má vísa í Íslenskan staðal, ÍST 3, Handrit og prófarkir (sjá skrá yfir leiðbeiningarrit í upphafi þessa bæklings). Sérprent Háskólaútgáfan útbýr að jafnaði ekki sérprent úr greinasöfnum. Höfundar geta pantað slík sérprent um leið og þeir skila fyrstu próförk en þurfa þá að greiða sérstaklega fyrir þau samkvæmt reikningi.

Skil á handriti undirbúin

Hér eru talin nokkur atriði sem gott er að fara skipulega yfir áður en handriti er skilað þótt sumt af þessu hafi verið nefnt áður:

 • Vistið hvern kafla fyrir sig, undir viðeigandi heiti og númeri. Merkið athugasemdagreinar með númerum og byrjið á 1 í hverjum nýjum kafla. Þær skulu vera aftast í viðeigandi kafla eða í sérstöku skjali og merktar hverjum kafla fyrir sig. Neðanmálsgreinar verða færðar á sinn stað í umbroti.
 • Þegar handrit er fullbúið skal vista allar myndir, gröf og sérhannaðar töflur sem sérstök skjöl er beri sama heiti og tilvísun til þeirra í viðkomandi kafla segir til um (t.d. [Mynd 1], [Tafla 1] o.s.frv.).
 • Textar með myndum, töflum og gröfum birtist í megintextanum einu línubili undir tilvísuninni. Þar komi fram heimild, höfundur myndar, o.s.frv eftir því sem við á.
 • Myndir séu vistaðar á TIFF- eða EPS-formati í nægilega góðri upplausn (300 punktar/tommu fyrir litmyndir, 200 punktar/tommu fyrir svarthvítar myndir).
 • Útprentað handrit skal innihalda allar myndir, gröf og töflur á réttum stöðum ef þess er nokkur kostur.
 • Minnt er á að sérhvert listaverk eða ljósmynd sem háð er höfundaréttarlögum þarf birtingarleyfi. Þessa leyfis þarf höfundur að afla, ekki útgáfan.
 • Skammstafanaskrár skal hafa fremst á eftir efnisyfirliti, sé notkun þeirra mikil.
 • Skrár yfir stytt nöfn heimilda má hafa næst á undan heimildaskrá ef þær eru fleiri en svo að vel fari á að fella þær inn í heimildaskrána.
 • Heimildaskrá kemur á eftir aftanmálsgreinum ef því er að skipta.
 • Bendiskrár, þ.e. nafna- og atriðisorðaskrár, skulu birtar aftast. Vinnsla þeirra getur ekki hafist fyrr en umbroti er fyllilega lokið og allar leiðréttingar hafa verið færðar inn. 

Gátlisti 

Í lokin er rétt að fara yfir eftirfarandi lista (gátlista, check list) áður en handriti er skilað:

 • Hefur áætluð lengd handrits breyst?
 • Eru allar myndir, töflur og gröf á sínum rétta stað í útprentuðu handriti?
 • Eru allar myndir, töflur og gröf vistaðar og rétt auðkenndar í sérstökum tölvuskjölum?
 • Fylgja allir myndatextar?
 • Eru öll birtingarleyfi fengin?
 • Stemma allar tilvísanir við heimildaskrá?
 • Er heimildaskrá fullgerð?
 • Er þörf á skrá yfir skammstafanir?

Algengt brot bóka 

Höfundum til glöggvunar fylgja hér upplýsingar um algengasta brot bóka hjá Háskólaútgáfunni:

 • Royal: 153 x 230 mm
 • Demy: 137 x 212 mm
 • Kennslubókabrot: HÚ 240 x 170 mm
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is