Háskóli Íslands

Ritið 3/2008 Tilbrigði

Höfundur/-ar/Ritstjóri/-ar: 
Björn Þorsteinsson og Gauti Kristmannsson ritstjórar
Verð: 
ISK 3290 - Kilja
Háskóli Íslands

Hugtakið „tilbrigði“ (e. variation) hefur verið mjög á döfinni í hugvísindum síðustu áratugi í kjölfar efasemda um ótvírætt gildi hins „upp¬runalega“ og ráðandi stöðu hins staðlaða. Þess í stað hefur athyglinni í vaxandi mæli verið beint að ýmiss konar breytileika og frá¬vikum, t.d. menningarfyrirbærum sem eru í andstöðu við opinbera stefnu eða megin¬strauma. Þetta hefur haft í för með sér nýjar rannsóknaráherslur og aðferðir, sem aftur haldast í hendur við gagngerar breytingar á því hvernig fólk aflar sér upplýsinga nú á dögum. Með hliðsjón af þessum aukna áhuga þótti ástæða til að helga þetta þemahefti af Ritinu tilbrigðum á öllum sviðum hugvísinda þótt tilbrigði í máli og málnotkun séu í forgrunni.

Í heftinu eru þrjár greinar um tilbrigði í máli eftir íslenska málvísindamenn, Höskuld Þráinsson, sem fjallar um tilbrigði frá sjónarhóli málkunnáttufræði (e. generative grammar), Sigríði Sigurjónsdóttur, sem fæst við tilbrigði í máli barna og Helga Skúla Kjartansson, sem fjallar um nýjungagildi tilbrigða í máli. Einnig er birt grein eftir bandaríska málfræðinginn Anthony Kroch í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur en Þórhallur Eyþórsson fylgir greininni úr hlaði. Þar fjallar hann ekki síst um málfræðilega samkeppni tilbrigða sem aflvaka í útbreiðslu málbreytinga.

Til viðbótar við umfjöllun um tilbrigði í tungumálinu eru í þessu hefti greinar um annars konar tilbrigði. Yelena Sesselja Helgadóttir fjallar um tilbrigði í byggingu færeyskra skjaldra sem eru náfrændur íslenskra þulna síðari alda. Tvær greinar fjalla um myndasögur og tilbrigði innan þeirra, eftir Úlfhildi Dagsdóttur og Bergljótu S. Kristjánsdóttur. Loks er óskiljanlegur breytileiki tilverunnar viðfangsefni Svavars Hrafns Svavarssonar í grein um forngríska heimspekinginn Pyrrhon frá Elís. 

Myndlistarþáttur Ritsins er helgaður Birgi Andréssyni (1955–2007). Í verkum sem Birgir kallaði Nýbúa ræktaði hann „innflytjendur“ í Ora-niðursuðudósum. Það er nærtækt að álykta að hér velti Birgir fyrir sér spurningum um stefnu Íslendinga í innflytjendamálum og hvort við reynum að rækta tilbrigði við okkur sjálf í innlendum jarðvegi. Arnaldur Freyr Birgisson ritar inngangsorð.

Tvær greinar í heftinu falla utan hins eiginlega þema. Henry Alexander Henrysson skrifar um þýska heimspekinginn Leibniz og Gauti Kristmannsson kannar tilteknar breytingar á því sem telst vera klassískt í bókmenntasögunni með því að skoða hvernig  íslenskar, eða norrænar, miðaldabókmenntir urðu „klassískar“, einkum á Bretlandseyjum á seinni hluta 18. aldar, en upp úr því víðar um heim.

Ritið er tímarit Hugvísindastofnunar. Ritstjórar árgangs 2008 eru Björn Þorsteinsson og Gauti Kristmannsson, en gestaritstjórar þessa heftis eru Ásta Svavarsdóttir og Þórhallur Eyþórsson. Unnt er að gerast áskrifandi með því að senda Margréti Guðmundsdóttur tölvupóst mgu@hi.is eða kaupa einstök eintök í bókaverslunum.

Blaðsíðufjöldi: 
244
Útgáfuár: 
2009
ISBN: 
978-9979-54-838-6
Tungumál: 
Verknúmer: 
U200937
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is