Háskóli Íslands

Ritrýni

Hér á eftir er gerð grein fyrir skipulagi og forsendum þeirrar ritrýni og ritstjórnar sem fer fram á vegum Háskólaútgáfunnar. Einnig koma fram upplýsingar um vinnsluferlið frá handriti til bókar. Annars vegar er miðað við handrit sem kemur beint frá höfundi, en hins vegar greinasafn sem kennari við skólann ritstýrir eða er á vegum rannsóknastofnunar við skólann sem í samráði við Háskólaútgáfuna ræður fræðimann til að sinna ritstjórn verksins. Safn greina eftir einn höfund fellur undir annan hvorn flokkinn, í samræmi við tilurð og tilhögun verksins. Þýtt bókarverk með fræðilegu ítarefni (t.d. inngangi), sem kemur til ritrýni, fellur einnig undir annan hvorn flokkinn, allt eftir því um hvers konar verk er að ræða.

Leiðbeiningum um frágang handrita (sem birtar eru annars staðar hér á síðunni skal fylgt eins nákvæmlega og kostur er). Það auðveldar alla vinnu ritstjóra og umbrotsfólks og stuðlar að því að stytta vinnsluferlið. Jafnframt tryggir það ákveðinn heildarsvip á fræðiritum útgáfunnar. Ef eitthvað er óljóst í þessari lýsingu munu starfsmenn Háskólaútgáfunnar fúslega veita nánari upplýsingar.

Markmið ritrýni og ritstjórnar hjá Háskólaútgáfunni er að tryggja að fullnægt sé alþjóðlegum kröfum um gæði og nýnæmi þeirrar þekkingar sem fram er sett. Kröfurnar varða innihald, vísindaleg vinnubrögð og framsetningu. Þessum kröfum verður fylgt eftir með markvissri ritstjórn ef handrit er samþykkt til útgáfu. Meginþættir ritrýni og ritstjórnar felast í þremur þáttum:*

1. Gæðamat á heildarefni, fræðilegu framlagi og framsetningu.

2. Tillögur um endurbætur á inntaki og almennri framsetningu þar sem því er að skipta.

3. Ábendingar og tillögur um lagfæringar á einstökum málsgreinum og setningum, orðalagi og allri textameðferð.

1) Handrit frá höfundi: Handriti er skilað til Háskólaútgáfu sem tekur það til forskoðunar. Handriti skal fylgja útfyllt upplýsingaeyðublað (sjá til vinstri hér á síðunni) um höfundinn þar sem einnig er gerð stuttlega grein fyrir efnistökum handritsins. Að forskoðun lokinni er handrit sent ritnefnd sem gefur umsögn, en hún er skipuð þremur aðilum sem Háskólaútgáfa (2) og Vísindasvið (1) tilnefna. Sé handrit talið uppfylla skilyrði til ritrýni tilnefnir ritnefnd Háskólaútgáfunnar óháðan fræðiritstjóra útgáfunnar af viðkomandi fræðasviði sem ásamt ritnefnd velur verkinu tvo ritrýnendur sem kanna hvort handritið fullnægi þeim kröfum um fræðilegt gildi og framlag, ásamt framsetningu og frágangi, sem lýst er í leiðbeiningum útgáfunnar.

Tilnefndir ritrýnendur gefa umsögn um handritið, leggja til hvort það skuli samþykkt til útgáfu eða því hafnað – eða koma því á framfæri að þeir telji handritið útgáfuhæft að gefnum ákveðnum breytingum. Umsögnin byggist m.a. á rökstuðningi í stuttu máli og, ef við á, almennum tillögum um lagfæringar og úrbætur. Niðurstöður ritrýnenda, ásamt mati ritnefndarinnar, eru síðan kynntar höfundi. 

Fræðslustjóri liðsinnir höfundi við frágang verksins ásamt fastaritstjóra Háskólaútgáfunnar. Ritstjórarnir gera frekari tillögur um lagfæringar og endurbætur ef þurfa þykir. Er höfundur skilar lagfærðu handriti metur ritnefnd hvort settu markmiði með ritrýni og ritstjórn bókarinnar hafi verið náð. 

Ritstjórar bókar verða tilgreindir á titilsíðu og þess getið, t.a.m. á baksíðu bókarkápu, hver staða höfundar er við Háskóla Íslands, s.b. samþykkt háskólaráðs frá 8. maí 2008 (það á einnig við um þýðendur og höfunda fræðilegra formála). Nafn fræðiritstjóra útgáfunnar er tilgreint á kreditsíðu.

2) Handrit greinasafna: Þegar forsvarsmenn rannsóknastofnunar við HÍ ráðgera útgáfu greinasafns skal haft samráð við Háskólaútgáfuna um ráðningu ritstjóra sem er sérfróður um 
hlutaðeigandi viðfangsefni. Ráðgeri kennari við skólann eða aðrir akademískir starfsmenn að beita sér fyrir og
 ritstýra greinasafni, án aðkomu rannsóknastofnunar, skal hann sömuleiðis hafa
 samráð við Háskólaútgáfuna áður en verkið kemst á rekspöl. Handriti er skilað 
til Háskólaútgáfu sem tekur það til forskoðunar. Handriti skal fylgja útfyllt
 upplýsingaeyðublað (sjá til vinstri hér á síðunni) þar sem einnig er gerð
 stuttlega grein fyrir efnistökum handritsins. Að forskoðun lokinni er handrit
 sent ritnefnd sem gefur umsögn, en hún er skipuð þremur aðilum sem
 Háskólaútgáfan (2) og Vísindasvið (1) tilnefna. 

Greinasöfn eru ekki tekin til skoðunar af ritnefnd fyrr en allar greinar hafa borist og 
ritstjóri hefur farið rækilega yfir allt handritið.(Sjá nánar:http://haskolautgafan.hi.is/leidbeining_um_fragang_handrita)

Sé handrit talið uppfylla skilyrði til ritrýningar tilnefnir ritnefnd Háskólaútgáfunnar óháðan fræðiritstjóra útgáfunnar af viðkomandi fræðasviði sem ásamt ritnefnd velur verkinu tvo ritrýnendur sem kanna hvort handritið fullnægi þeim kröfum um fræðilegt 
gildi og framlag, ásamt framsetningu og frágangi, sem lýst er í leiðbeiningum 
útgáfunnar. Við vinnslu greinasafna skal þannig skilið með skýrum hætti milli
 ritstjóra bókarinnar og umsjónar með ritrýni greinanna. Ritstjóri bókar getur þó lagt verkinu lið við þessa vinnu í samráði við ritnefnd.

Tilnefndir ritrýnendur gefa umsögn um handritið, leggja til hvort það skuli samþykkt til
 útgáfu eða því hafnað – eða koma á framfæri að þeir telji handritið útgáfuhæft
 að gefnum ákveðnum breytingum. Umsögnin byggist m.a. á rökstuðningi í stuttu
 máli og, ef við á, almennum tillögum um lagfæringar og úrbætur. Niðurstöður 
ritrýnenda, ásamt mati ritnefndarinnar allrar, eru síðan kynntar ritstjóra. Sé
 verkið samþykkt til útgáfu vinnur ritstjóri bókarinnar áfram að frágangi þess í
 samræmi við athugasemdir ritrýnenda og í samráði við ritnefndina, textaritstjóra
 útgáfunnar og fræðiritstjóra hennar. Eigi ritstjóri bókarinnar sjálfur
 fræðilega ritsmíð í verkinu skal ritnefndin fylgja sérstaklega eftir
 athugasemdum um hana. Er ritstjóri skilar lagfærðu handriti metur ritnefnd
 hvort settu markmiði með ritrýni og ritstjórn bókarinnar hafi verið náð.

Ritnefnd áskilur sér rétt til að hafna handritum eftir forskoðun og á öllum vinnslustigum. Handrit má þó leggja fram á ný að teknu tilliti til athugasemda er fram koma í forskoðun.

Öllum ritsmíðum sem fara í gegnum framangreint ritrýni- og ritstjórnarferli þarf að fylgja útdráttur („abstract“) og á það jafnt við um bækur sem einstakar greinar í greinasöfnum. Ritum á íslensku skal fylgja útdráttur á ensku en ritum á ensku skal fylgja útdráttur á íslensku. Ritum á öðrum tungumálum (t.d. Norðurlandamálunum) skulu fylgja útdrættir bæði á íslensku og ensku. 

  • Handriti skulu einnig fylgja 5 lykilorð til skráningar í gagnabanka sem nýtast m.a. við netleit.

Ritrýni er ekki launuð, samkvæmt ákvörðun stjórnar HÚ og samkomulagi Samráðsnefndar háskólaráðs og Félags háskólakennara um „Fyrirkomulag vegna skilgreindra stjórnunarstarfa“ http://fh.hi.is/files/fyrirkomulagstjórnunarstarfa_2014.pdf
sjá „Umfang og eðli stjórnunarstarfa, liður B.
Í þessu er einnig stuðst við alþjóðleg viðmið, þar sem ritrýning er að jafnaði ekki launuð og litið svo á að hún sé n.k. þegnskylda þar sem allir virkir rannsakendur þurfi á ritrýningu eigin handrita að halda á sínum ferli.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is