Háskóli Íslands

Úr matskerfi opinberra háskóla

Reglur um mat á bókum:

A2 og A3. Bækur og bókakaflar

Bókaverk eru flokkuð í fjóra flokka, sbr. neðangreint. Sérstök nefnd þriggja sérfræðinga, sem vísindanefnd opinberra háskóla skipar, annast mat og flokkun bóka og bókakafla. Nefndin skal eftir atvikum leita sér aðstoðar annarra sérfræðinga við mat á einstökum bókum og bókaköflum. Við það mat skal horft til þess hvort bókaverk standist alþjóðlegar kröfur um ritstjórnarlega umgjörð og fræðilegt framlag, án tillits til þess á hvaða tungumáli þau eru skrifuð. Hliðsjón er einnig höfð af því hvernig tímaritsgreinar eru metnar (sbr. flokkunina í A4). Vísindanefnd opinberra háskóla er heimilt að semja nánari leiðbeiningar um mat og flokkun bóka.

A2 Bækur

A2.1. Ritrýnd útgáfa hjá virtustu vísindaforlögum heims (allt að 100 stig)

Bækur sem gefnar eru út hjá virtustu vísindaforlögum heims. Eftirfarandi forlög falla í þennan flokk:
Cambridge University Press,
Elsevier

Harvard University Press
John Wiley & Sons (þ.á m. Blackwell Publishing) Kluwer/Springer
Oxford University Press
Taylor and Francis (þ.á m. Routledge)

Framangreindur listi um virtustu vísindaforlög heims er ekki tæmandi. Höfundar ritverka sem gefin eru út hjá öðrum sambærilegum akademískum forlögum geta óskað eftir því að ritverk þeirra verði metið í þessum flokki, þetta á t.d. við um forlög sem eru mjög framarlega á tilteknum þröngum fræðasviðum.

A2.2. Alþjóðleg ritrýnd útgáfa og innlend ritrýnd útgáfa með alþjóðlega skírskotun (allt að 75 stig)
Innlend ritrýnd ritverk teljast hafa alþjóðlega skírskotun ef þau uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1.  Verkin uppfylla kröfur um þekkingarsköpun í alþjóðlegri vísindaumræðu samtímans.

2.  Útgefandinn tryggir aðgengileika verka erlendis (t.d. með umboðsaðilum), þannig að

hægt sé að nálgast þau á alþjóðlegum bókakaupalistum.

3.  Auk ritrýni sinnir forlagið virkri fræðilegri ritstjórn.

4.  Ef verkið er á íslensku skal fylgja því útdráttur á ensku (eða öðru útbreiddu

tungumáli).

A2.3. Íslensk eða erlend ritrýnd útgáfa sem einkum miðast við staðbundið fræðasamfélag (allt að 50 stig)
Hér er t.d. átt við ritrýnd ritverk sem gefin eru út af viðurkenndum útgáfuaðilum en er einkum beint til staðbundins fræðasamfélags (e. „domestic academic community“) og uppfylla ekki öll þau skilyrði sem sett eru um flokk tvö. Gerð er skýlaus krafa um að verk í þessum flokki byggi á sjálfstæðum rannsóknum en gildi þeirra getur jafnframt falist í vissu miðlunarhlutverki, þ.e. að þau beini alþjóðlegri vísindaumræðu og kenningum inn í staðbundið fræðasamfélag.

A2.4. Aðrar bækur (allt að 25 stig)

Í þennan flokk falla ritrýnd vísindarit og önnur mikilvæg fræðirit sem einkum er beint til staðbundins fræðasamfélags.

A2.5. Endurútgáfur (allt að 10 stig).

Endurútgáfur þurfa að fela í sér umtalsverðar breytingar.

Sjá nánar á vef Vísinda og nýsköpunarsviðs – Mat á rannsóknum

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is